„Þú rammar inn með fótunum“ – kvöldfundur með Golla

Félagsstarfið í Fókus hófst aftur eftir áramót á fyrirlestri hjá Golla, frétta- og heimildaljósmyndara sem fór fram í kvöld, þriðjudagskvöldið 9. janúar. 46 félagar mættu og hlustuðu á frásögn hans af alls kyns verkefnum og sáu fjöldann allan af myndum úr safninu hans.

Golli lagði mikið út frá því hversu mikið gildi þær ljósmyndir sem við tökum núna gætu haft að nokkrum árum eða áratugum liðnum. Í þeim myndum sem hann sýndi okkur var fólk í alls kyns aðstæðum og verkefnum mjög áberandi, enda lagði hann ríka áherslu á það við félaga að í fólkinu felast sögur.

Þó svo að margir telji að mesta dramatíkin og svakalegustu augnablikin sé að finna í viðburðum sem fara í sögubækurnar, eru oft mikil verðmæti falin í því sem stendur okkur nær og lætur kannski minna yfir sér. Sögur af venjulegu fólki í óvanalegum aðstæðum. Með því að setja okkur inn í aðstæðurnar, horfa á það sem er að gerast og „ramma inn með fótunum“ sé oft hægt að fanga fallega innrömmuð og skemmtileg augnablik.

Golli segir frá verkefni sem hann tók á Ítalíu. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson.

Golli minnti okkur líka á að græjurnar eru verkfæri og eru lítils virði ef við notum þær ekki. Hann hvatti félaga til þess að vera dugleg að nota myndavélarnar, leita uppi augnablik og passa svo að gera eitthvað úr myndunum okkar og láta þær ekki hlaðast upp á hörðum diskum.

Við þökkum Golla kærlega fyrir hressandi fyrirlestur og frábærar sögur sem vonandi hvetja Fókusfélaga til dáða.

Hægt er að fylgjast með Golla á Instagram auk þess sem hann hefur nú hafið störf á Heimildinni og birtir þar reglulega fallegar og vandaðar fréttamyndir

Skráðu þig í Fókus ef þig langar til þess að komast í skapandi og skemmtilegan félagsskap áhugaljósmyndara og taka þátt í starfseminni.