Sýning, fundir og kvöldrölt

Framundan er síðasta sýningarvika á „Einu sinni var“, samsýningu 39 Fókusfélaga í Borgarbókasafninu, Menningarhúsi í Spönginni. Laugardagurinn 23. mars er síðasti laugardagurinn sem sýningin er opin, en lokað verður í bókasöfnum í dag föstudag vegna starfsdags. Páskar eru svo framundan og því ekki margir dagar eftir, við hvetjum öll til að kíkja sem ekki hafa haft tækifæri til þess enn. Sýningin stendur til 2. apríl.

Fjöldi glæsilegra mynda er til sýnis. Mynd: Kristján U. Kristjánsson

Opnun sýningarinnar 2. mars síðastliðinn var fjölmenn og virkilega gaman að sjá hversu ólík sýn Fókusfélaga er á þemað.

Fókusfélagar skála fyrir opnun á sýningu félagsins 2024. Mynd: Kristján U. Kristjánsson.
Opnunin var fjölmenn og létt yfir mannskapnum. Mynd: Kristján U. Kristjánsson

Eyrún Lydía og ævintýraleg hvalaljósmyndun

Þriðjudagskvöldið 12. mars fengum við skemmtilegan og áhugaverðan fyrirlestur á fundi hjá okkur þegar ævintýraljósmyndarinn Eyrún Lydía sagði okkur frá ljósmyndaferð til Tonga þar sem hún myndaði hnúfubaka frá morgni til kvölds í heila viku.

Lífleg og skemmtileg frásögn Eyrúnar. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson

Hún sýndi okkur frábærar myndir og sagði okkur frá tækni og búnaði sem þarf til þess að takast á við aðstæðurnar í sjónum við Tonga og hvernig er að umgangast hvalina. Við hvetjum fólk til að fylgjast með henni á Instagram.

Kvöldröltin byrjuð aftur

Nú þegar daginn er tekið að lengja er ferðanefndin komin aftur af stað með kvöldröltin. Það fyrsta á þessu ári fór fram í hávaðaroki við Hvaleyrina þar sem níu Fókusfélagar hittust og spreyttu sig á briminu í sólarlaginu.

Við Hvaleyri. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson.

Aðstæður voru ekki eins og þær geta bestar verið, en þátttakendur voru sammála um að það væri betra að fara aðeins út í stutta stund og ná einni þokkalegri mynd frekar en að sitja heima og ná ekki neinni!

Brimið var kraftmikið. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson.

Það er margt skemmtilegt framundan fyrir félaga í Fókus. Dagskráin er aðgengileg hér á vefnum, Facebook síðan okkar er lífleg og svo erum við komin á Instagram.

Skráðu þig í Fókus ef þig langar til þess að komast í skapandi og skemmtilegan félagsskap áhugaljósmyndara og taka þátt í starfseminni.