Lög félagsins

1. grein

Félagið heitir Fókus, félag áhugaljósmyndara, kt. 680499-3149. Heimili og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein

Tilgangur og markmið félagsins er að virkja ljósmyndun sem áhugamál hjá fólki og skapa um leið öflugan vettvang fyrir félagsmenn til  að sinna þessu áhugamáli sínu.

3. grein

Félagið mun meðal annars standa fyrir fundum, sýningum, fræðslu,  ljósmyndaferðum, ljósmyndakeppnum, kynningum fagaðila á vörum og þjónustu ásamt samstarfi við fagaðila um ýmislegt varðandi ljósmyndun. Félagið skal halda úti samskiptavettvangi, vefsíðu þar sem félagar geta komið myndum sínum á framfæri og haft samskipti innbyrðis. Þetta geta verið fleiri en ein síða t.d. fyrir innri og ytri málefni tengd félaginu. Stjórn og nefndir geta að auki komið tilkynningum og upplýsingum þar á framfæri þó vefsíður í nafni félagsins séu ekki ætlaðar til almennra auglýsinga á vörum eða þjónustu. Að undangenginni kynningu á félagsfundi skal stjórn ákveða hvernig þessu skal háttað á hverjum tíma með fyrirvara um fjárskuldbindingar sem fara eftir ákvæðum þessara laga um slíkt. Stjórn skal hafa fullt umboð yfir öllum samskiptamiðlum sem eru birtir í nafni félagsins en getur samkvæmt stjórnarsamþykkt falið umsjónaraðila úr hópi félaga að annast daglegan rekstur síðunnar. Félagið mun skapa umræðuvettvang þar sem skipst er á skoðunum um strauma og stefnur hverju sinni. Félagið skal hafa forgöngu um að fá hagstæð kjör fyrir félagsmenn í viðskiptum við fyrirtæki sem bjóða ljósmyndavörur og þjónustu. Að jafnaði skulu almennir félagsfundir haldnir aðra hverja viku á tímabilinu september til maí; eða frá og með fyrsta þriðjudegi septembermánaðar að aðalfundi félagsins.

4. grein

Félagið er opið öllum sem áhuga hafa á ljósmyndun, jafnt byrjendum sem lengra komnum. Fullgildir  félagar eru þeir sem greitt hafa árgjald til félagsins. Félagsgjald fellur í gjalddaga 1. febrúar og eindagi er 15. febrúar. Félagsmaður sem ekki hefur greitt félagsgjald fyrir 1. mars fellur af félagaskrá.

5. grein

Aðalfund skal halda um miðjan maí. Reikningsár félagsins fylgir starfsárinu frá 1. maí til 30. apríl.  Á aðalfundi skal leggja fram skýrslu stjórnar liðins árs og endurskoðaða reikninga félagsins, auk rekstraráætlun fyrir næsta starfsár.  Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið til áframhaldandi reksturs.  Aðeins félagsmenn sem greitt hafa árgjaldmega vera þátttakendur í aðalfundi. Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmæts aðalfundar. 

6. grein

Aðalfund skal boða með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara með skriflegri tilkynningu til félagsmanna, eða á annan tryggilegan hátt. Rafræn fundarboðun, eins og tölvupóstur eða orðsending á vefsíðu, telst tryggileg. Aðalfundur er löglegur ef til hans er löglega boðað.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 

1. Setning fundar

2. Kjör fundarstjóra og fundarritara

3. Skýrsla stjórnar lögð fram

4. Umræður um skýrslu stjórnar

5. Reikningar lagðir fram af gjaldkera

6. Umræður um reikninga

7. Reikningar bornir undir atkvæði

8. Lagabreytingar

9. Félagsgjöld ákveðin

10. Kosning stjórnar og skoðurnarmanna

11. Kosning í nefndir Fókus, ferðanefnd og sýningarnefnd. Stjórn skipar aðrar nefndir

12. Önnur mál

7. grein

Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og einum meðstjórnanda.  Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi, formaður sérstaklega, þá varaformaður, ritari, gjaldkeri og síðan meðstjórnandi.  Kjósa skal tvo varamenn í stjórn. Á aðalfundi skal kjósa skoðunarmann og einn til vara.

8. grein

Starfstími nýkjörinnar stjórnar hefst strax að aðalfundi loknum. Til þess að stjórnin sé ákvarðanahæf, þarf meirihluta hennar til samþykktar. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi. Ef atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Stjórnin skal skipuleggja og stýra starfi félagsins milli aðalfunda og skipa nefndir eftir þörfum. Markmiðið með skipun nefnda er að virkja sem flesta félaga til þátttöku í starfsemi félagsins. Erindisbréf skal fylgja skipun nefnda og tilgreina bæði hlutverk og umboð viðkomandi nefnda. Stjórnin skal kynna áætlaða dagsskrá funda og annarra viðburða tveggja tímabila, fyrst september til desember og síðan janúar til maí, á fyrsta félagsfundi hvors tímabils.    

9. grein

Formaður skal vera í forsvari fyrir félagið út á við. Stjórn félagsins skal boða fundi samkvæmt kynntri dagskrá.  Stjórnarfundir skulu haldnir eigi sjaldnar en annan hvern mánuð á tímabilinu september til maí. Reglulega stjórnarfundi í september til maí skal skipuleggja samhliða dagskrá fyrir fyrsta félagsfund í september. Formaður skal almennt boða til annarra stjórnarfunda með að minnsta kosti tveggja daga fyrirvara. Að lágmarki tveir stjórnarmenn, aðrir en formaður, geta einnig boðað til slíkra stjórnarfunda og þá með sama fyrirvara. Formanni er skylt að boða til almenns félagsfundar um tiltekið mál ef minnst 10% félagsmanna óska þess.  Forfallist formaður, skal varaformaður gegna skyldum hans.

10. grein

Ritari stjórnar skal skrá fundargerðir aðalafundar, stjórnarfunda og félagsfunda og halda utan um þær fundargerðir, hann skal að auki halda utan um önnur skjöl félagsins. Fundargerðir skulu birtar viðkomandi fundarmönnum innan viku frá hverjum fundi. Allar fundargerðir skulu vera aðgengilegar fyrir félagsmenn. Gjaldkeri skal halda utan um allar umsóknir um félagsaðild og viðhalda skrá yfir fullgilda félagsmenn. Stjórn ákveður á hverjum tíma hverjir hafa aðgang að félagaskrá.  Ekki er heimilt að afhenda félagaskrá þriðja aðila.  

11. grein

Gjaldkeri félagsins ber ábyrgð á fjárreiðum þess og skal vera prókúruhafi á reikningum félagsins. Öll bókhaldsgögn félagsins skulu vera í vörslu gjaldkera. Til að skuldbinda félagið þarf meirihlutaákvörðun stjórnar með undirskrift gjaldkera og formanns. Allar meiriháttar fjárskuldbindingar skal félagsfundur samþykkja og skal til hans boðað á sama hátt og aðalfundar. Með meiriháttar fjárskuldbindingu er átt við að farið sé yfir 50% af áætluðum félagsgjöldum fyrir yfirstandandi starfsár. Gjaldkeri skal afhenda bókhald félagsins til endurskoðunar hjá skoðunar mönnum félagsins að minnsta kosti 10 dögum fyrir aðalfund félagsins. Rekstrar- og efnahagsreikningar  félagsins skulu lagðir fyrir aðalfund félagsins, samþykktir og undirritaðir af bæði gjaldkera og skoðunarmannifélagsins.

12. grein

Gagnagrunnur allra samskipta félagsins skal geymdur til að auðvelda upplýsta umræðu miðað við fyrri ákvarðanir svo og til að varðveita sögu félagsins.

13. grein

Félagsmenn skulu gæta fyllstu háttvísi í samskiptum innan félagsins. Hafi félagsmaður athugasemdir eða vill koma á framfæri ábendingum sem varða félagið eða félagaþess skal hann senda erindi til stjórnar. Ef ósættir er með störf stjórnar þá hefur aðalfundur æðsta vald í félaginuog unnt er að boða til aukaaðalfundar riti 20% skuldlausra félagsmanna undir slíka ósk.

14. grein

Lögum félagsins verður eingöngu breytt á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Með fundarboði um aðalfund skulu fylgja framlagðar tillögur um lagabreytingar. Nái tillaga til lagabreytingar samþykki 2/3 hluta fundarmanna öðlast hún þegar gildi.

15. grein

Komi fram tillaga um það að félaginu skuli slitið skal hún sæta sömu meðferð og tillaga um lagabreytingar, samanber 14 grein í lögum félagsins. Sé tillaga um slit félagsins samþykkt skulu hreinar eignir félagsins renna til Ljósmyndasafns Reykjavíkur.

16. grein

Almennar reglur um félög og fundarsköp ráða þar sem fyrirmæli skortir í samþykktum þessum.

(Samþykkt á aukaaðalfundi 3. september 2019)