Jólakeppni 2020

Ef marka má heimasíðuna okkar þá virðist sem lítið hafi verið í gangi undanfarnar vikur, sem er kannski rétt að einhverju leyti því við höfum þurft að draga verulega úr hefðbundnum viðburðum vegna ástandsins í samfélaginu. Við höfum hinsvegar ekki setið alveg auðum höndum og við höfum undanfarið gert myndvinnsluæfingar þar sem félagsmenn hafa fengið að spreyta sig á eftirvinnslu bæði ljósmyndum hvors annars og einnig atvinnumanna. Svo er hin árlega árbók komin í prentun og væntanleg fyrir jól, en 40 félagar tóku þátt í bókinni sem við erum hæstnægð með. Loksins eru komnar leiðbeiningar varðandi notkun spjallsins okkar, en okkar eigin Tryggvi Már Gunnarsson var svo góður að búa til kennslumyndbönd fyrir okkur, hægt er að nálgast þau í flipa sem birtist undir Spjallið hér í valmyndinni uppi.

Jólakeppni 2020 er komin í gang og mun Origo / Canon á Íslandi gefa sigurvegara keppninnar Canon Selphy Square QX 10 ljósmyndaprentara að verðmæti 28.900 kr. Þemað er einfaldlega jólin 2020 og að þessu sinni ætlum við að takmarka þátttöku við félagsmenn Fókus. Skilafrestur í keppnina er 27. desember og mun kosning hefjast strax í kjölfarið og að lokum verður sigurvegari gerður kunnur á miðnætti á gamlárskvöld.

Myndvinnsluæfingar í stað kvöldrölts – Áminning fyrir félaga

Í nafni samstöðu vegna hertra smitvarnaaðgerða frestuðum við kvöldröltinu sem átti að vera síðasta þriðjudag. Vonandi kemst jafnvægi á faraldurinn bráðlega og þá getum við endurskoðað kvöldrölt fljótlega.

Að því sögðu ætlum við að prófa svolítið nýtt.  Okkur langar að efna til myndvinnsluæfinga á þann hátt að nokkur okkar leggja til ljósmyndir í púkk og þegar 10 ljósmyndir hafa borist munum við safna þeim saman og bjóða „bunkann“ fram sem heimavinnu til ykkar allra sem vilja. Allir fá tækifæri til að spreyta sig á myndvinnslu þessara 10 mynda og að nokkrum dögum liðnum munum við smala saman afrakstrinum og birta útkomuna fyrir alla að sjá og bera saman. Það eru tvær lexíur í þessu, annarsvegar að æfa okkur í myndvinnslu og hinsvegar að sjá hve ólíka túlkun er hægt að draga fram út frá handbragði hvers og eins einstaklings. Þetta er ekki keppni og ekki gagnrýni, þetta er eingöngu æfing til þess að læra, njóta og hafa gaman af.

1)
 Veldu mynd úr þínu safni til þess að deila með okkur hinum. Reyndu að vanda valið og velja mynd sem þú telur að hægt sé að vinna með í myndvinnslu, mynd af múrvegg væri til dæmis óhentugt innlegg. Skemmtilegast væri að fá vandaða landslagsmynd, kyrralífsmynd, abstract, arkitektúr eða portrait sem dæmi. Við viljum ekki fá hversdagsmynd eða „fjölskyldusnapp“, ekki senda okkur mynd sem þú myndir ekki nenna að vinna sjálf/ur.

2) Sendu aðeins eina mynd, RAW skrá helst, á myndir@fokusfelag.is fyrir kl. 18 föstudaginn 16. október. Best er að nota wetransfer.com til að koma viðhengjum stærri en 25MB til okkar.

3) Laugardaginn 17. október munum við  senda ykkur hlekk þar sem hægt verður að sækja þessar 10 myndir í einum bunka. Þið hafið til kl 18.00 mánudaginn 19. október til þess að vinna og skila inn ykkar myndum. Skemmtilegast væri ef allir þátttakendur myndu vinna allar 10 myndirnar í bunkanum. Ljósmyndum skal skila sem JPG til baka.

4) Þriðjudagskvöld 20. október munum við birta afrakstur ykkar.

Ef mjög margar myndir berast þá munum við líklega skipta þessu upp í nokkra pakka og endurtaka leikinn fljótlega eftir að fyrsta umferð klárast.

kveðja, stjórnin

Ljósmyndaraspjallið

Nú er farið af stað hlaðvarp um ljósmyndun. Þáttastjórnendur eru 2 meðlimir Fókus, þeir Gunnar Freyr og Óli Jóns. Þeir eiga óformlegt spjall við góða gesti og farið er um víðan völl. Þetta er frábær afþreying í umferðarteppunni.

Ljósmyndaraspjallið á Facebook

Spjall við ljósmyndara um ljósmyndun

Haustið 2020

Nú er Fókus – félag áhugaljósmyndara að komast aftur í gírinn eftir gott sumarfrí. Fyrsti viðburður haustsins verður (upphitunar)streymi á Facebook síðunni okkar og hefst það kl 20.00, þriðjudaginn 8. september. Arngrímur formaður mun hefja fundinn með nokkrum orðum varðandi vetrardagskrána og í kjölfarið munu Kiddi, Guðjón Ottó og Ragnhildur rýna í og jafnvel vinna nokkrar innsendar ljósmyndir frá félögum.

Facebook-síðu Fókus finnur þú hér:
https://www.facebook.com/groups/fokusfelag/

Júníkeppni lokið

Innilega til hamingju með sigurinn Kolbrún Nadíra í júníkeppni Fókus 2020 sem hafði þemað „Rigning“. Keppendur voru 10 talsins og gáfu 17 aðilar atkvæði. Sjáumst í næstu keppni sem haldin verður í haust þegar starfsemi félagsins fer aftur í gang.

1. sæti:
Hoppípolla
eftir Kolbrúnu Nadiru Árnadóttur
2. sæti:
Blíðan í dag
eftir Söru Elíasdóttur
3. sæti:
Í blíðu og stríðu
eftir Kristján U. Kristjánsson

Vordagskrá 2020 lokið

Það hefur aldeilis hellingur gerst í félaginu frá síðustu færslu. Í kjölfar COVID þar sem flestum viðburðum þurfti að aflýsa var farið í aðalfund um leið og við máttum hittast og ný stjórn kosin eins og vaninn er. Félagið stóð fyrir þremur, tveggja klukkustunda löngum netstreymum með myndrýni frá góðum gestum á meðan samkomubannið stóð sem hæst. Haldin var ljósmyndasýningin „Fólk í Fólkus“ í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Spönginni en sýningin stóð frá 4. júní til 3. júlí og tóku 29 félagsmenn þátt í sýningunni með 64 ljósmyndum. Ferðanefndin stóð ekki á sínu og hélt fjögur kvöldrölt með vikulegu millibili, fyrst á Hvaleyrina, svo Sólfarið í Reykjavík, fuglaljósmyndun við Vífilsstaðavatn og að lokum kvöldrölt með kaffihittingi í Grasagarðinum, en því kvöldrölti lauk með hraðkeppni þar sem 9 félagsmenn tóku þátt og vann Ólafur Magnús Håkansson fyrstu verðlaun með glæsilegri macro mynd sem sjá má við þessa fréttafærslu. 6 mánaðarkeppnir voru á önninni og hlaut Stefán Bjarnason 1. verðlaun fyrir maímánuð þar sem hann fékk prentara í verðlaun í boði Origo / Canon á Íslandi, og nú þegar þessi færsla er rituð er kosning í síðustu keppninni, júníkeppninni. Stjórn er þegar byrjuð að undirbúa haustönn fyrir árið 2020 og vonumst við til þess að sjá marga nýja meðlimi á næsta starfsári og hlökkum til að hitta þá gömlu líka.