Fréttir af félagsstarfi

Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar í starfinu hjá okkur. Fyrirlestrar, opin hús, dagsferð og heimsókn á Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Hér koma stuttar frásagnir af helstu viðburðum og myndir.

Heimsókn á Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Fimmtudaginn 5. október tók Ljósmyndasafn Reykjavíkur á móti tæplega 20 manna hópi félagsmanna, kynnti starfsemi safnsins og sýndi skemmtilega gripi úr safnkostinum.

Starfsemi safnsins kynnt. (Mynd: Kristján U. Kristjánsson)

Eftir kynninguna var boðið upp á léttar veitingar og spjall. Í alla staði mjög fróðleg heimsókn á safn sem allt áhugafólk um ljósmyndun ætti að kynna sér og heimsækja reglulega. Við þökkum Ljósmyndasafni Reykjavíkur kærlega fyrir góðar móttökur.

Leica kynning

Þriðjudagskvöldið 10. október koma Bjarki Reynisson frá Reykjavík Foto og sagði okkur frá heimsókn sinni í Leica verksmiðjuna í Wetzlar í Þýskalndi.

Bjarki Reynisson segir félögum frá Leica. (Mynd: Kristján U. Kristjánsson)

Bjarki fór ítarlega yfir sögu Leica, hugmyndafræði og sérstöðu Leica meðal myndavélaframleiðenda. Að auki kynnti hann okkur helstu nýjunar í vörulínunni og eftir kynninguna fengu félagar að handleika nýjustu vörurnar frá Leica.

Fátt sem toppar gott græjufikt fyrir ljósmyndaáhugafólk. (Mynd: Kristján U. Kristjánsson)

Þetta var frábær kynning hjá Bjarka og fjölmennur fundur sammála um að saga Leica og nálgun þeirra í framleiðslu á myndavélum hafi verið áhugaverð og komið mörgum á óvart. Við þökkum Bjarka kærlega fyrir komuna og góða skemmtun!

Opið hús

24. október var haldið opið hús fyrir félaga til þess að hittast og spjalla. Þessi opnu hús eru orðinn fastur liður í starfi félagsins. Þar er engin ákveðin dagskrá en félagar hittast, stundum með græjur, og spjalla um hvaðeina sem viðkemur ljósmyndaáhuganum.

Félagar á spjalli. (Myndir: Tryggvi Már Gunnarsson)

Við hvetjum félaga eindregið til að mæta á þessa óformlegu viðburði og styrkja þannig tengslin við félaga. Þar gefst líka tækifæri til að læra „óvart“ eitthvað nýtt, aðferðir eða ljósmyndatækni, sem ekki hefur verið reynt áður.

Dagsferð í Hvalfjörð

4. nóvember fóru 12 félagar í Hvalfjörð í leit að skemmtilegu myndefni. Þema sýningarinnar sem haldin verður eftir áramót var í forgrunni, „einu sinni var.“ Það er óhætt að segja að í Hvalfirðinum sé ótal margt sem hægt er að tengja við þemað og mörg mótív sem minna á liðna tíð.

Gamla brúin yfir Botnsá kallaði fram minningar hjá mörgum um löngu liðnar ferðir um Hvalfjörðinn. (Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson)

Gamlar brýr, yfirgefnir söluskálar, strönduð hvalveiðiskip og minjar um námavinnslu voru meðal fjölmargra mótíva sem voru mynduð í bak og fyrir. Það verður spennandi hvort að afrakstur ferðarinnar skilar sér í sýninguna.

Listræn portrettljósmyndun

14. nóvember mætti Jónatan Grétarsson, portrettljósmyndari til okkar og sagði okkur frá vinnu sinni sem listrænn portrettljósmyndari síðastliðin ár.

35 félagar mættu og hlustuðu á áhugaverðar sögur og hugmyndir Jónatans af portretttökum sínum. (Mynd: Kristján U. Kristjánsson)

Jónatan sagði okkur frá fjöldamörgum myndum og verkefnum sem hann hefur verið að vinna, allt frá listrænum portrettum sem hann hefur gefið út í bókum sínum yfir í framúrstefnulegar fjölskyldumyndir, ásamt því að sýna okkur mikinn fjölda af verkum sínum.

Fráögn Jónatans var lífleg og skemmtileg, auk þess sem hann sýndi félögum bækur sem hann hefur gefið út. Við þökkum Jónatani kærlega fyrir komuna.

Framundan eru kvöldrölt, opið hús og stórkostlegt jólabingó. Skráðu þig í Fókus ef þig langar til þess að komast í skapandi og skemmtilegan félagsskap áhugaljósmyndara og taka þátt í starfseminni.