Aðalfundi Fókus 2021 frestað

Stjórn Fókus hefur rætt mögulegt fyrirkomulag á aðalfundinum sem ætti með réttu að boða í síðasta lagi í dag miðað við að fundurinn verði 25. maí n.k. Með hliðsjón af þessu þrautseiga Covid ástandi og að talsverðum vandkvæðum er bundið að halda fundinn með réttum hætti hvort sem er í raunheimum eða netheimum, þá hefur stjórnin ákveðið að slá fundinum á frest þar til að loknum sumarfríum. Þá mun núverandi stjórn sinna nauðsynlegum verkum fyrir félagið þar til ný stjórn tekur við í haust.

Stjórnin trúir því að hægt verði að halda fundinn með eðlilegum hætti í haust þar sem við getum hitt hvort annað og afgreitt það sem ber að afgreiða á aðalfundinum og ekki síður að eiga samveru þar sem við deilum skoðunum og ræðum sameiginleg áhugamál okkar yfir kaffibolla.

Þar sem nú fer að styttast í sumarfríatíma og skipulögð dagskrá fellur niður viljum við í stjórninni þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn við starfið á liðnu starfsári. Þetta á að sjálfsögðu við bæði um fókusfélaga sem og aðra sem hafa staðið fyrir viðburðum á fundum, fyrirtæki sem hafa stutt okkur og ekki síst ykkur félögunum sem hafið oftast tekið þátt heimanfrá.


Óskum ykkur öllum gleðilegs sumars og hlökkum til að klára þetta starfsár og byrja nýtt í haust.

Kær kveðja,
Stjórnin

Fókusfélagar taka spjallið

Netfundur Fókus á TEAMS þriðjudaginn 13. apríl kl. 20:00 til 21:30
Fundurinn er að þessu sinni aðeins fyrir félaga í Fókus

Hallfríður Ingimundardóttir segir okkur í máli og myndum frá því hvernig hún hefur þróast sem ljósmyndari frá því hún kom í félagið okkar fyrir nokkrum árum og til dagsins í dag. Spennandi verður að heyra hvernig hún hefur getað nýtt sér jafningjafræðslu og aðra starfsemi í félaginu til að komast á þann stað sem hún er í dag, sem frábær ljósmyndari.

Anna Soffía Óskarsdóttir ætlar að segja frá áhugaverðum ljósmyndastöðum og sýnir okkur myndir samhliða, Anna Soffía er mikill náttúruunnandi og lengi búin að vera virk í félaginu. Anna hefur verið óspar við að miðla af sinni þekkingu sem einn af okkar allra fróðustu félögum um landið og náttúru þess. Anna ætlar að spjalla um hvernig hún sér fyrir sér staði og mótíf og hvernig megi virkja náttúruna í samhengi ljósmyndunar.

Ragnhildur Finnbjörnsdóttir stjórnarmeðlimur mun taka spjallið með þeim Hallfríði og Önnu.
Um leið skorum við á ykkur sem heima sitjið að vera ófeimin við að taka spjallið með þeim.

Kær kveðja, Fókus

Linkurinn á TEAMS er í tölvupósti sem ætti að hafa borist í gær.