„Þetta var skárst – eitt og annað gamalt og nýtt“ með Þorkeli Þorkelssyni

Þriðjudagskvöldið 25. janúar kom Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Landspítalans á fund og sagði okkur magnaðar sögur og ævintýri af löngum ljósmyndaferli.

Myndirnar sem hann sýndi okkur, hvort sem þær voru frá átakasvæðum í fjarlægum heimshlutum eða úr starfi Landspítalans í Covid, gæddu sögurnar lífi.

Þorkell segir sögu frá erlendum vettvangi. (Mynd: Tryggvi Már)

Að vanda var góð mæting á fundinn og góður rómur gerður að fyrirlestri Þorkels. Það er ómetanlegt fyrir áhugafólk um ljósmyndun að heyra svona sögur, fá innblástur og heyra af hugarfari okkar færustu ljósmyndara.

Það var sérlega áhrifarík og spennandi frásögnin af ferðalagi Þorkels um Írak undir lok síðustu aldar. Hægt er að lesa um þá ferð og skoða myndir í sérblaði Morgunblaðsins frá 1998 á timarit.is.

Að fyrirlestri loknum var spjallað um græjur, ljósmyndun, ferðir og ævintýri. Fókus þakkar Þorkeli kærlega fyrir frábæra kvöldstund.

Það er margt spennandi framundan í starfinu hjá okkur í Fókus. Unnið er að prentun mynda fyrir sýninguna sem opnar 4. mars, félagar eru að senda inn myndir í árbók og mörg að taka myndir af fuglum, sem er þema janúarmánaðar hjá okkur.

Skráðu þig í Fókus ef þig langar til þess að komast í skapandi og skemmtilegan félagsskap áhugaljósmyndara og taka þátt í starfseminni.

Á spjallinu okkar geturðu svo meðal annars fylgst með umræðum og séð myndir úr ferðum félagsins.