Þú þarft að geta hlustað á þögnina

Eyþór Ingi Jónsson er tónlistarmaður og ljósmyndari á Akureyri. Hann stundar  fuglaljósmyndun af miklum krafti og undanfarið hafa landslagsmyndirnar hans vakið verðskuldaða athygli. Þessa dagana er til dæmis úrval mynda eftir Eyþór til sýnis á Glerártorgi á Akureyri.

Eyþór Ingi Jónsson – mynd TMG

Ég hitti Eyþór í Laxdalshúsi á Akureyri og við spjölluðum aðeins um ljósmyndunina og fuglana, auk þess sem við fórum út í aðeins heimspekilegri pælingar um tengsl ljósmyndar og tónlistar.

Sýning Eyþórs á Glerártorgi

Hvernig kviknaði ástríðan fyrir ljósmyndun hjá þér?

“Ég átti prýðisgóða filmuvél sem krakki og var snemma byrjaður að mynda. En það lagðist svo að mestu af á meðan ég var í námi, en svo þegar ég eignast stafræna vél og þokkalega aðdráttarlinsu fyrir um það bil 12 árum varð fugla ljósmyndunin fljótt að ástríðu. 

Það var eiginlega Már Höskuldsson á Húsavík sem kynnti mig fyrir þessu. Hann keypti sér myndavél á undan mér, var með 400 mm linsu og eiginlega smitaði mig af þessu. En ég fann fljótt að þetta var eitthvað sem mig langaði að þróa meira og ná betri tökum á.”

Stokkönd – Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

En af hverju fuglar frekar en eitthvað annað?

“Ég ólst upp í Hvammssveit í Dölunum og pabbi kenndi mér alveg frá unga aldri að þekkja fugla og ég átti fuglabók frá því að ég var bara sex ára. Það eru svo sem aðallega mófuglar þarna, en ég fékk ungur áhuga á þeim og maður varð alltaf var við þá og fylgdist með á vorin þegar var verið að fara með lambfé á fjöll og svona og þeir einhvern veginn heilluðu mig.

Ég tek líka virkan þátt í starfi Fuglaverndar, tek þátt í merkingum þegar ég get, gef þeim aðgang að myndum frá mér og hef aðeins verið að lóðsa fólk, t.d. hér í Krossanesborgum og í skógargöngum og hjálpa því við að komast af stað í fuglaljósmyndun

Það er síðan eins með fuglaljósmyndunina og t.d. landslagsljósmyndun, þetta gefur manni tækifæri til að vera úti og njóta náttúrunnar líka, í alls konar veðri og alls konar aðstæðum. Þannig að þetta er aðeins meira en bara það að taka myndir.

Þannig að þegar ég fékk mér fyrstu stafrænu vélina fyrir 12 árum og byrjaði að mynda, var ég með 400 mm Sigma linsu sem ég fékk á spottprís og það voru eiginlega bara fuglarnir sem mig langaði að eltast við og það er þannig ennþá. Ég sækist í þessa einveru og gæðastundir með fuglum. 

Fuglar eru heldur ekki bara viðfangsefni ljósmynda fyrir mér. Mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á því hvað það eru margar fallegar tegundir til. Ég lærði mikið um fugla og atferli þeirra af Sverri Þorsteinnson, fyrrverandi skólastjóra á Stóru-Tjörnum og Ævari Petersen fuglafræðingi um atferli fugla og það hefur fylgt mér síðan.  Það er líka eitt af því sem ég er að stússa núna er að reyna að ná atferli óstressaðra fugla á vídeó sem vonandi verða birt opinberlega næsta vetur. „

Áttu þér uppáhaldsstað og uppáhald fugla?

„Fáfarnir staðir eru í uppáhaldi hjá mér. Ég get t.d. nefnt Flatey og úteyjarnar þar, ég hef talsvert verið þar við fuglamerkingar og talningar og því fylgir síðan alltaf ljósmyndun. 

Einn af mínum uppáhaldsstöðum til að mynda fugla er Langanes því þar get ég verið nánast einn. Ég mynda t.d. nánast aldrei við Mývatn, því þar get ég aldrei verið einn. Á Langanesi hittir maður nánast engan, kannski stöku eggjatökumann, en annars hefur maður þetta stórkostlega svæði út af fyrir sig. 

Mér þykir mjög vænt um þennan landshluta og þorpin þarna, Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn t.d. þannig að þó svo að ég finni mikinn frið og ró í einuverunni á Langanesi, þá veit ég alveg að þessi þorp myndu alveg þola meiri umferð og meiri viðskipti. En það er kannski aðeins tvíbent að mæra einveruna en eiga um leið hættu á að umferðin þar aukist. 

Ég á mér samt enga uppáhalds fugla, svona beinlínis. Ég er farinn að horfa meira í umhverfið og reyna að búa til ljósmyndir sem eru fallegar myndir. Í upphafi var ég, eins og flestir sem byrja í fuglaljósmyndun, að eltast við að ná sem flestum tegundum, en núna finnst mér alveg jafnmikilvægt að horfa í að ljósmyndin í heild skapi stemmingu, frekar en að ná bara tegundinni. 

Ég man svo vel þegar ég var að byrja og náði t.d. nýrri tegund á flugi, þá varð maður svo spenntur, en núna er það miklu meira augnablikið, fallegt umhverfi, stemmingin og birtan sem búa til kikkið hjá mér. Minimíalísk mynd þar sem er kannski einn litur eða litatónn ráðandi gefur mér mikið núna og mér finnst gaman að hafa mikið úr fókus og blörrað í myndinni. Það skapar svo mikla kyrrð. „

Flórgoði – Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

„Mér finnst líka mjög mikilvægt að fuglinn viti ekki af mér, eða sé í það minnsta rólegur yfir því að ég sé þarna. Fugl í varnarstöðu finnst mér ekki neitt sérlega skemmtilegt myndefni. Þá bíð ég frekar lengur og vona að hann róist. Það getur tekið langan tíma, hálftíma til klukkustund. Það fer náttúrlega eftir tegundum, t.d. er álkan þannig að hún veit alltaf af þér, en ef maður gefur henni nægan tíma til að venjast þér, þá geturðu þokað þér örlítið nær þeim, hægt og rólega. 

Það er sennilega ýmislegt líkt með því að mynda fugla og að taka portrett. Þú þarft að byggja upp traust milli þín og fuglsins, hann þarf að sætta sig við að þú sért þarna og hann þarf að verða rólegur og slaka á. Þá verður hann fallegri á myndinni. „

Hringvía – Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér í fuglaljósmyndun? 

„Ef ég er er t.d. að fara á Langanes, þá finnst mér ágætt að koma að því norðvestanmegin seinnipart dags og ná síðdegissólinni á súlum, álkum og stöku lunda og mynda þar fram undir miðnætti. Birtan af miðnætursólinni getur verið svo falleg. 

Eftir miðnættið, þegar sólin er rétt við hafflötinn, getur verið gaman að kíkja suðuraf, því þar er lundinn stundum að kíkja upp fyrir brúnina og þá sleikir birtan frá sólinni gjarnan fallega beint framan í þá. Svo sefur maður nokkra klukkutíma og reyna svo að ná fjörufuglunum í morgunsólinni sem er alveg geggjuð.“

Hvað með sjaldgæfar tegundir ertu að leita að þeim líka?

„Já, ég myndi alltaf velja að fá að mynda t.d. haförn eða þórshana, frekar en aðra fugla í hinni fullkomnu birtu.

Ég hef fengið leyfi til að mynda þessar tegundir, en það er ekki alveg einfalt mál að fá þannig leyfi og þarf að hafa samband við töluvert af fólki. Stundum er það heppni eins og t.d. þegar ég fékk að mynda þórshana en það hitti akkúrat á talningu, sem á sér bara stað á 10 ára fresti. Þannig að ég fékk að fara með í talninguna og myndirnar mínar voru síðan notaðar til að greina fugla. 

En það er gríðarlega mikilvægt að fara ekki í leyfisleysi eða óvarlega að hreiðrum þessara sjaldgæfu fugla því þær eru viðkvæmar fyrir mannaferðum og geta auðveldlega hrakist af hreiðrum og varpið þá misfarist. „

Hraundrangi í Öxnadal – Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Nú sáu margir mynd eftir þig um daginn af Hraundranga þar sem tunglið virðist vera bara rétt við drangann. Hvernig kom það til? Varstu búinn að plana þetta?

„Já, ég var búinn að sjá þessa mynd fyrir mér lengi. Ég var einhvern tíma að keyra þarna um og sá þetta fyrir mér. Ég er með smá áráttu fyrir Hraundranga og þetta er stórkostlegt svæði þarna í kring  sérstaklega á haustin. Svo var ég að keyra þarna í einhverjum erindum og hugsaði með mér: Vá hvað það væri flott ef tunglið væri sunnan við drangann, í dældinni milli drangans og fjallsins Kistu.  

Svo mundi ég að ég átti app, PhotoPills, og fór eitthvað að tala um það við Sindra félaga minn og viðra þessa hugmynd og tala um að ég kynni ekki á appið. Hann sagði mér að nota “plannerinn” í appinu og þar getur maður valið bara staðinn og séð hvar og hvenær tunglið gengur fram hjá dranganum, gráður og fleira. 

Þannig að ég þegar ég fer að fylgjast með þessu sé ég að ef ég er neðarlega í Öxnadalnum, þá er tunglið að fara um í þessa átt um kl. 9.20 um morguninn. Ég sá líka að tunglið var ekki fullt, sem var akkúrat eins og ég vildi hafa það.  Svo stillti ég klukkuna og gerði allt klárt en sef svo yfir mig og kem of seint og næ því ekki. En ég sá sem betur fer að þennan morgun var það ekki alveg í réttri hæð, þannig að ég ákvað að prófa daginn eftir og þá gekk allt upp. Nema ég kom náttúrlega aðeins of seint á fundinn sem ég átti að vera á. 

Ég er í rauninni tiltölulega nýbyrjaður að mynda landslag og mér finnst alveg ótrúlega gaman að horfa í landslagið, velta fyrir mér hvaða birta og aðstæður gætu gert sem mest fyrir landslagið, alveg eins og í fuglunum. „

Finnur þú einhver líkindi með tónlistinni og ljósmynduninni?

„Já. Ég fattaði einhvern tíman, sennilega af því að mér finnst gott að vera einn, að ég heillast svolítið af því sem er pínulítið dapurlegt. Mér finnst svo fallegt ef tónlistin er einföld,  t.d. bara einfalt, rólegt, þjóðlegt og tregafullt lag, eitt stef, kannski bassastef, sem er endurtekið aftur og aftur, það heillar mig. Það fylgir því einhver kyrrð, hálfsorgleg og mér finnst svo fallegt ef maður nær því í myndunum. Einn fugl, á kletti í Flatey við miðnætti. Svolítið dimmt og fullt af kyrrð. Einfalt stef.

Mér finnst myndir af kraftmiklum stöðum, sem einhvern veginn kalla fram kyrrð í kraftinum, kallast á við það sem heillar mig í tónlistinni líka. Hvort tveggja, að spila svona tónlist og að ná mynd sem fangar þenna kjarna er eiginlega eins og hugleiðsla, endurnýjar mann og kjarnar aðeins einhver augnablik sem gefa manni kyrrð.

Maður þarf að geta hlustað á þögnina. „


Það er hægt að skoða myndirnar hans Eyþórs á heimasíðunni hans, https://www.eythoringi.com/. Þar er líka að finna gagnlegar og skemmtilegar upplýsingar um nokkra staði á Norðurlandi sem ljósmyndarar gætu haft gaman af að heimsækja í bráðskemmtilegu bloggi.