Einu sinni var – 2024

Hér er að finna skýringartexta myndhöfunda við myndirnar á sýningu Fókus, Einu sinni var.

 1. Anna Soffía Óskarsdóttir – Og allir komu þeir aftur.
  Höfrungur AK 91 er fyrsta skipið sem smíðað var fyrir Harald Böðvarsson á Akranesi. Farsælt fiskiskip sem lagði grunninn að stórri skipasmíðastöð og öflugri stórútgerð. Titillinn og myndin hafa þó víðari skírskotun. Gamall slagari vísar til hættulegs starfs sjómanna áður fyrr, þar sem alls ekki var sjálfsagt að allir kæmu heim.

 2. Arngrímur Blöndahl – Flugvélaflak á Sólheimasandi
  DOUGLAS Dakota-vél af gerðinni C-117 nauðlenti á Sólheimasandi þann 27. nóvember 1973. Þegar vélin kom niður fyrir skýin með dautt á báðum hreyflum sökum ísingar sá áhöfnin eitthvað sem “leit út eins og tunglið” Þar var um að ræða Sólheimasand. Sjö menn voru með vélinni, sem var frá varnarliðinu, og sluppu þeir allir ómeiddir. Vélin var að koma frá Höfn í Hornafirði, en þangað hafði hún flutt vistir til ratsjárstöðvarinnar á Stokksnesi. Eitt af því sem kom fram í eftirmálum um slysið hjá hernum var „Það verður að hafa í huga að veðrið á Íslandi er mjög kraftmikið. Það breytist líklega oftar en nokkurs staðar í heiminum fyrir utan heimskautasvæðin sem er ástæða þess að við fljúgum vanalega ekki yfir þau.“

 3. Ágúst Jónsson – Einu sinni var kastali
  Myndin var tekin í september 2014 í kastalarústum syðst í Suður Tyrol á Ítalíu. Kastalinn heitir Haderburg (þýska) eða Castel Salorno (ítalska) og er frá miðöldum. Hann var byggður á klettadrangi og er aðkoma að honum um u.þ.b. 1 km, brattan og hlykkjóttan göngustíg. Kastalinn var um langt skeið í hirðuleysi og niðurníðslu, en hluti hans hefur nú verið færður í betra horf og yfir sumarmánuðina er rekinn þar veitingastaður sem býður upp á miðaldarétti.

 4. Bára Snæfeld Jóhannsdóttir – Blómi
  Blómi lífsins fölnar, en reynsla liðinna stunda birtist í annarri litaflóru og formum. Lokaandvarpið, fræin fyrir komandi tíð. Staðsetning: göngustígur meðfram Hringbraut í Reykjavík 8. okt. 2017. Myndin er tekin á Canon 400D, linsa. EF-S 18-55, IS 100, f9.

 5. Brynja Jóhannsdóttir – Kofi barnanna
  Á göngu minni suður í Hraunum gekk ég fram á veggjarbrot af sumarbústað í fallegri lautu. Þar hefur fjölskylda átt sér sælureit á sumrin. Þarna var einnig að finna lítinn, hálf fallinn kofa þar sem börnin hafa unað sér vel í leik.

 6. Daðey Arnborg Sigþórsdóttir – Hafið gefur og hafið tekur
  Að sitja við eldhúsgluggann og bíða eftir að sjá skipsljós í fjarðarmynninu var reglulegur partur af minni barnæsku. Bið eftir að sjá skipið hans pabba nálgast þegar þeir voru á stími í land. Sem betur fer vorum við svo lukkuleg að pabbi skilaði sér alltaf í land en á ferðalagi mínu um Melrakkasléttu árið 2022 blasti við mér þetta staka stígvél sem lét hugann reika að því hvað hafið tekur og hafið gefur.

 7. Einar Hrafnkell Haraldsson – Tengsl
  Alfaraleið er gömul þjóðleið milli Innnesja og Útnesja á Reykjanesskaga. Hraun runnu yfir hluta leiðarinnar fyrir tæplega 1000 árum. Jarðsími er við leiðina og í fjarska sést varða.

 8. Einar Valur Einarsson – Æ, legðu honum bar’útá túni
  Gamall Chevrolet vörubíll úti á miðju túni í Hvalfirði.

 9. Finnbogi Gunnarsson – Deutz traktor
  Einu sinni var ég frambærilegur í sveitum landsins en það er löngu liðin tíð. Ég er enn fagurgærnn eins og öll mín ætt en þyki óttaleg písl í dag og ekki til stórræðanna. Myndin er tekin í Saurbæ í Eyjafirði árið 2021 þar sem Búsaga-búnaðarsögusafn Eyjafjarðar hefur aðstöðu.

 10. Finnur A P Fróðason – Litla Kaffistofan
  Hasselblad Xpan, Ektachrome 100, Skannað á Imacon skannara. Myndin tekin 2010 og skönnuð. Myndin minnir okkur á gamla tímann þegar oft var stoppað við Litlu kaffistofuna og vegurinn yfir heiðina lokaður vegna veðurs.

 11. Friðrik Guðmundsson – Kveðjustund
  Faðir minn lést i byrjun árs 2008 eftir langa baráttu við Alsheimer. Í kringum afmælisdaginn hans 2007, 17. desember, kom hann „heim“, í síðasta skiptið. Myndin er tekinn á Canon 5D v1.

 12. Gissur Orri Steinarsson – Above clouds
  Tekin frá Esju í átt að Úlfarsfelli, toppurinn virðist gægjast upp úr skýjunum.

 13. Guðlaugur J Albertsson – Garðar
  Þann 10. september 2020 ákvað fjölskyldan sem er samsett af fjórum einstaklingum, þremur mannverum og einum hundi að fara í þessu góða veðri sem var þennan dag niður á Rauðasand. Í bakaleiðinni ákvað ljósmyndarinn í hópnum að stoppa í fjörunni í Skápadal við Patreksfjörð, þar sem elsta stálskip Íslendinga er. PS. Hundurinn var ekki með í þessum ákvarðanatökum, naut hann góðs af þessari ferð þennan dag.

 14. Guðmunda Kristín Guðmundsdóttir – Hvítanes
  Á Hvítanesi má finna leifar af herstöð frá heimstyröldinni síðari. Ryðgaðar uppistöður bryggju sem einu sinni sinnti veigamiklu hlutverki renna saman við hvít fjöllin og mjúkan mosann. Róin sem hvílir yfir staðnum núna gefur ekkert uppi um umbrotatímann sem einu sinni var.

 15. Gunnar Bill Björnsson – Tímans tönn
  Tímans tönn tekin 2.7.2021 á Höfn í Hornafirði. Þetta tannhjól er til minningar um stórt gangverk sem einu sinni var en heyrir nú sögunni til.

 16. Halldór Kristinn Jónsson – Yfirgefin verbúð
  Á ferð minni upp í Flókalund þá sá ég þetta gamla hús staðsett á hraun rifi við sjóinn og labbaði niður að því. Þegar þangað var komið þá blasti við þessi gamli bátur sem siglir ekki meira og þá fór sagan að koma í ljós. Mér fannst þetta vera tilvalið myndefni um það sem einu sinni var og passaði vel í safnið mitt „Abandoned“. Þar sem þetta er minning um gamla tíma þá fannst mér s/h passa vel til að undirstrika það.

 17. Hallfríður Ingimundardóttir – Bergsstaðir í Svartárdal
  Bergsstaðir í Svartárdal, kirkjustaður til 1925. Mynd tekin 2021.

 18. Hjörtur Stefánsson – Einu sinni voru sauðfjárbændur í öllum sveitum landsins.
  Myndina tók ég af frænda mínum í lok október 2019 en hann hætti búskap áramótin 2019-2020. Þarna var verið að flokka sláturær frá þeim sem voru settar á. Þetta er frá Gröf í Bitrufirði en þarna var ég sem krakki í sveit 2-3 parta úr sumri og á bara góðar minningar.

 19. Hrönn Sigurgeirsdóttir – Margæsir
  Margæsir í vetrarlegu veðri við gömlu fallegu timburhúsin í Ráðagerði á Seltjarnarnesi boða að sumarið er sannarlega á næsta leiti, þrátt fyrir snævi þakta Esjuna í bakgrunni. Margæsir sem eru fargestir á Íslandi og vetra sig á Írlandi, verpa á Heimskautasvæðum Norður Kanada og eru varpsvæði þeirra ein þau norðlægustu sem þekkjast meðal fuglategunda. Ísland gegnir mikilvægu hlutverki sem viðkomustaður en gæsirnar þurfa að safna nægum forða hérlendis bæði til eggjamyndunar sem og til að knýja hið 3000 km langa farflug, þvert yfir Grænlandsjökul, á varpstöðvarnar á 80´N á Ellesmere-eyju og svæðunum í kring. Talningar benda til þess að þessi tiltekni stofn (aðeins rúmlega 30.000 fuglar) hafi allur viðdvöl hér á landi og um fjórðungur þess fari um Suð-Vestur horn Íslands. Hinn hlutinn eru á öðrum stöðum á Vesturlandi.

 20. Ingibjörg Óskarsdóttir – Sólarlag í Grafarvogi
  Sonardóttir mín Sara Máney í sólarlaginu á klettum í Grafarvogi eftir góðan göngutúr í júní 2011.

 21. Ingunn Mjöll Sigurðardóttir – Hjónin á Árbæjarsafni
  Hjónin Anna Stefanía Magnúsdóttir og Björn Heimir Björnsson. Mynd tekin þann 17.júní 2023 á dásemdardegi lýðveldisins á Árbæjarsafninu. Aldarbúningana sem þau hjónin eru í eru saumaðir af Önnu og er mikið lagt í fallegt handverkið og passa þau svo yndislega vel inn í fallegt umhverfið.

 22. Ingveldur Bjarnarson – Sæluhús við Jökulsá á Fjöllum
  Sæluhús sem var reist 1881, til að hýsa mann sem ferjaði fólk yfir Jökulsá á Fjöllum. Húsið er kjallari, hæð og ris. Kjallari var ætlaður hestum. Sökum reimleika þótti ekki gott að gista í húsinu. Ferjuflutningar lögðust af yfir Jökulsá 1947. Myndin er tekin í september 2023.

 23. Jón Bjarnason – Perla
  Perla, 1990 – 2023. Perla var ein af mínum uppáhalds hestum. Perla var mikill orkubolti, en samt ljúf sem lamb. Hún var töffari. Perla var ekki fyrir alla, treysti ekki öllum. Hún var líka stundum svona eins og ofvirkur unglingur. En nú er Perla farin. Hún kvaddi sitt jarðlíf mjög snögglega sumarið 2023. Blessuð sé minning hennar.

 24. Júlíus Valsson – Voffi
  Einu sinni var lítill hvítur hundur sem hét Voffi. Hann gelti allan liðlangan daginn: „Voff, voff, voff!“. Nágrannarnir voru pirraðir út í Voffa vegna hávaða og krakkarnir í hverfinu voru hræddir við hann. Pósturinn var hættur að koma með póst og dagblöð. Voffa leiddist því hann hafði engan til að leika sér við. Það var ekki skrýtið því hann gelti á alla sem gengu framhjá glugganum. Einn góðan veðurdag gekk Fiskikóngurinn fram hjá húsinu hans Voffa sem gelti hástöfum. Fiskikóngurinn horfði undrandi á Voffa og fór að tala við hann vingjarnlegum rómi, hann kunni nefnilega hundamál: „Ef þú hættir að gelta skal ég gefa þér soðinn humar á hverjum degi“, sagði Fiskikóngurinn. Voffi gelti ekki eftir það. Nágrannarnir hættu að vera pirraðir, krakkarnir í hverfinu hættu að vera hræddir við Voffa og pósturinn fór aftur að bera út bréf og blöð í húsið.

 25. Kristján Unnar Kristjánsson – Stendur á þrjóskunni
  Alveg síðan ég fluttist í Grafarvoginn árið 2013 hef ég fylgst með þessari girðingu liðast í sundur á meðan hverfið allt í kring byggist upp. Hún stendur á milli golfvallarins við Korpu og Egilshallar, en mikil uppbygging er í vændum í Grafarvogi og er bara tímaspursmál hvort henni verði leyft að standa fram á síðasta staur, eða hvort henni verði vikið fyrir nýjum og glæsilegum bílastæðum.

 26. Lárus St Guðmundsson – Þegar Fagradalsfjall sleikti sólina
  Eldgosið á Fagradalsfjalli í samtali við eilíft gos sólarinnar í 150 milljón km fjarlægð. Myndin er tekin við sólarupprás 12. maí 2021 kl. 4.50 Tilurð myndarinnar. Ég fór af rælni á miðnætti upp að Perlunni til að kíkja á virkni gossins, líkt og ég hafði gert nokkrum sinnum áður. Í þetta skiptið var virknin umtalsverð þannig að ég ákvað að skella mér út á Reykjanes og kíkja á gosið í nærmynd. Þegar ég gekk að gosinu voru allir að fara af svæðinu þannig að ég varði nóttinni einn með Fagradalsfjalli í gosblóma. Þegar sólin tók að stíga, var gosvirknin það mikil að ég sá möguleika á að ná skörun sólar og goss á mynd. Þetta var ógleymanleg nótt.

 27. Már Jóhannsson – Síldarævintýrið
  Sumarið 1968 var síðasta síldarveiðiárið. Undirtexti: Þessi mynd iðar af lífi og sýnir hvernig lífið var á Siglufirði er síldin var uppá sitt besta.

 28. Ólafur Magnús Håkansson – Amma Afríka
  Myndin var tekin á ferðalagi í Botswana árið 2014. Gömul kona af ættbálki frumbyggja í Kalahari eyðimörkinni. Þeir eru taldir hafa lifað þar síðastliðin 40000 ár. Konan var að sýna okkur plöntur og rætur sem frumbyggjarnir nýta sér til matar.

 29. Ósk Ebenesersdóttir – Sabína
  Fá orð geta lýst sorg gæludýraeiganda þegar fréttir af ólæknandi krabbameini er staðreynd. Ég frétti af slíkum raunum hjá mági mínum og kisunni hans og bað í kjölfarið um leyfi að mynda þau saman. Samband þeirra var einstakt frá fyrstu kynnum en kötturinn hafði átti brösugt líf í upphafi en honum hafði verið hafnað af fleirum en einum eiganda þar sem hann þótti „erfiður“. Mágur minn sem er annálaður dýravinur tók kisa að sér þrátt fyrir áhættuna í ljósi sögu hans og að auki var fyrir annar köttur á heimilinu. Ljósmyndin endurspeglar kærleik þeirra á milli eftir 8 ára kynni. Stuttu síðar voru þjáningar kisunnar á enda og fékk hún svefninn langa. Myndin lifir og vekur ljúfsárar minningar um tíma sem kisan Sabína lifði við ástríki og öryggi hjá besta kisupabba sem henni var úthlutað.

 30. Ragnhildur G Finnbjörnsdóttir – Lestarstöð í Prag
  Lestarstöð í Prag, 2017 Ég valdi þessa mynd því hún er af gamalli lestarstöð í Prag og það er erfitt að sjá hvort hún sé tekin nýlega eða fyrir 100 árum. Hún er svarthvít og tekin á gamla Canon AE1. Þannig að myndin er ekki aðeins gömul í útliti heldur er hún líka tekin á gamla vél. Eins og svo oft með filmu myndir þá veit maður ekki almennilega hvort myndirnar heppnast fyrr en þær eru framkallaðar og ég er svo glöð að þessi heppnaðist svona vel.

 31. Rannveig Björk Gylfadóttir – Ráðgáta
  Myndin er tekin með “icm” og double exposure” í myndavélinni, af “Calanais Standing Stones” á skosku suðureyjunni Lewis. Steinarnir voru settir niður fyrir meira en 5000 árum síðan og notaðir í helgiathōfnum í um 2000 ár. Þeir eru ráðgáta og eru sveipaðir dulúð. Þeir hafa líklega verið notaðir til stjōrnuskoðunnar og til að fylgjast með breytingum á tíma og árstíðum.

 32. Sandra Dögg Jónsdóttir – Hvað sá hún…og hver sá hana?
  Gangandi um göturnar, veiðandi ramma…Með hugann hjá Vivian Maier & hennar snilld á tímum þar sem annar hver maður var ekki að taka myndir & enginn spurði hvar ætlar þú að birta myndina? Þá kíkti hún ekki á myndina strax á eftir heldur beið það töfra myrkrakompunnar. Það er öðruvísi finnst mér að taka mynd með vél sem horft er ofan í, eins & meiri alvara heldur en þegar vél er borin snöggt upp að auga & smellt af.

 33. Sigríður Jóna Kjartansdóttir – Dauðu trén í Deadvlei
  Dauðu trén í Deadvlei. Namibia, maí 2023. Fögur sýn blasir við þegar horft er yfir Deadvlei. Tignarlegar gylltar sandöldur umvefja dalinn þar sem svört tré stinga í stúf við hvítt leirhaf, að ofan brosir brennheit sólin umlukin fagur bláum himni.Það er ógleymanleg tilfinning og jafnvel súrrealísk að upplifa þennan stað í eigin persónu. Þar sem einu sinni var líf er nú þögnin ein, umhverfið þurrt og hart og ótal tré sem hafa staðið dauð í nær 700 ár. Það er ekki laust við að smá ónotatilfinning læðist að manni þegar gengið er á milli þessara dauðu trjáa þar sem þau sitja föst í harðri, hvítri leirplötu sem þekur botn dalsins. Einu sinni lifandi en nú löngu dauð með kræklóttar greinar sínar sviðnar og þurrar eftir heita sólargeisla halda þó áfram að lifa þegar skuggar þeirra dansa á hvítum leirnum í takt við gang sólarinnar.

 34. Stefán Hrafn Jónsson – Bláhvíta birtan
  Áhorf sjónvarpsmyndarinnar Blóðrautt sólarlag árið 1977 dró okkur loksins á Djúpuvík sumarið 2023. Ljósmyndin er tekin í lýsistanki síldarverksmiðjunnar á Djúpavík þar sem bláhvít birtan lýsti upp steingráa veggi markaða af ljósaskiptum níu áratuga.

 35. Svanur Sigurbjörnsson – Horft í skráargat tímans?
  Sveitir við suðurströnd Madagascar. Bóndakona og móðir sem býr við frumstæðar aðstæður og kröpp kjör á Madagascar horfir kankvís til ríkulega útbúins ljósmyndara frá Íslandi. Ætli hún horfi til þess að tímar muni breytast á eyjunni hennar í átt til tæknivæðingar þeirrar sem ljósmyndarinn kemur úr eða að hún horfi alls ekki til þess og lifi mögulega sátt í ánægjulegu núi einfaldari aðstæðna sinna þar sem tengslin við náttúruna haldast sterk? Er hún að hugsa eitthvað allt annað?

 36. Tryggvi Már Gunnarsson – Sérðu það sem ég sé?
  Svava Magnúsdóttir undirbýr sig fyrir brúðkaupsdaginn, þann 8. október 2022. Rúmlega ári fyrr, í september 2021, lenti hún í slysi og hefur verið lömuð fyrir neðan mitti síðan og bundin við hjólastól. Fyrir slys var Svava virk í útivist og hreyfingu, hló hátt og mikið og naut lífsins í tíðum ferðalögum. Það hefur ekki breyst og Svava hefur sagt að hún láti ekki hjólastólinn skilgreina sig. Þrátt fyrir mótlætið er hún ákveðin að festast ekki í að sakna þess sem einu sinni var heldur ætlar hún halda áfram og njóta alls þess sem nýja lífið býður upp á. Sérð þú Svövu eða hjólastólinn?

 37. Þórir Þórisson – Hún/hann
  Stuttu eftir að þessi mynd var tekin sat hún við hlið pabba síns í bílnum eftir fótboltaæfingu og sagði upp úr þurru „pabbi ég er strákur“ Fyrir mér sé ég bæði hana og hann. Þessi mynd er sú síðasta af henni og sú fyrsta af honum.

 38. Þóroddur Steinn Skaptason – Dalatangaviti
  Myndin er tekin á ferð um Austurland sumarið 2023. Ekið var um Mjóafjörð að Brekku og síðan um þröngan og holóttan veginn út á Dalatanga. Austar er ekki hægt að aka á Íslandi.Dalatangi er ysta nes á fjallagarðinum Flatafjalli milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Dalatangaviti er fyrsti ljósviti á austurlandi og annar á Íslandi. Hann var byggður 1895 af Otto Wathne athafnarmanni á Seyðisfirði. Safnamenn á austurlandi stóðu að endurreisn vitans 1986-1988 og er hann nú í umsjón Sjóminjasafns austurlands á Eskifirði.

 39. Þórunn Reykdal – Landið fýkur burt
  Jarðvegseyðing vekur hjá mér söknuð, er til merkis um það sem einu sinni var. Ævistarf mitt hefur fyrst og fremst snúist um fræðslu á sviði náttúru- landnýtingar- og umhverfismála og allt sem tengist því vekur áhuga minn og staldra ég gjarnan við þetta rofabarð þegar ég á leið um Arnarvatnsheiði.