Í gær opnaði sýningin Fólk í Fókus í Borgarbókasafninu í Spönginni í Grafarvogi. Okkur telst til að við opnunina hafi verið um 100 manns og var sýningarstjóri bókasafnsins á sama máli. Það má því segja að mætingin hafi verið með eindæmum góð. Á sýningunni eru 64 myndir eftir 29 félaga og voru þær jafn fjölbreyttar og þær voru margar. Það var mjög gaman að sjá hvernig fólk notaði sína styrkleika til að nálgast sama viðfangsefnið. Það er greinilegt að í Fókus eru góðir ljósmyndarar og gaman var að sjá hvernig hver hefur sinn stíl. Flott sýning þar sem allir sem brenna fyrir ljósmyndun, ættu að geta fundið myndir sem til þeirra höfða.
Þó mikil vinna hafi verið lögð í þetta verkefni og metnaður nefndarinnar til að leyra það vel úr hendi mikill, koma auðvitað upp einhver atriði sem betur máttu fara. Mér var bent á 3 innsláttarvillur í nöfnum sýnenda, í sýningarskrá og á miðum við myndirnar. Í einu tilfelli rataði innsláttarvillan á báða staði, svona getur copy/paste verið hættulegt stundum

Þegar svona verkefni fer af stað er eðlilegt og jákvætt að sem flestir hafa skoðun á hvernig er best að útfæra svona sýningu. Við hlustuðum á alla sem komu að máli við okkur með tillögur og vangaveltur en okkur varð það snemma ljóst að í 100 manna félagi er ekki hægt að geðjast öllum. Við þurftum því að taka stjórnina og taka ákvarðanir sem ekki varð breytt. Eins og gefur að skilja voru ekki allir ánægðir með sumar ákvarðanir á meðan öðrum þóttu þær góðar. Það er nú bara þannig í svona félagsskap að stundum þurfa réttmætar og góðar skoðanir að lúta lægra haldi fyrir öðrum. Þegar kemur að sýningum félagsins er það auðvitað markmið og skylda sýninganefndarinnar að tryggja að sem flestir fái að njóta sín. Félagsmenn eiga að geta sett á sýningu þær myndir sem þeim þykja bestar þó þemu sýninganna henti ekki öll árin. Með það að leiðarljósi förum við inn í næsta ár og endurhugsum hlutina svo sýningarnar okkar verði sem fjölbreyttastar og þemu sýninganna laði til sín félagsmenn sem tóku t.d. ekki þátt í ár. Ég hef einnig látið mér detta í hug að þó einungis sé ein hefðbundin sýning á ári hverju, er full ástæða til að kanna hvort ekki sé hægt að nýta nútíma tækni til að halda vandaðar og flottar sýningar í hinum stafræna heimi. Pæling...
Annars gekk þetta bara nokkuð vel og verð ég persónulega að þakka þeim fyrir sem lögðu hönd á plóg. Fyrst vil ég nefna þær Kaju og Brynju sem unnu ómetanlegt starf í nefndinni og má með sanni segja að liðsheildin og ósérhlífni hafi skilað þeim árangri og niðurstöðu sem úr varð. Ég er innilega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að starfa með þeim í þessari vegferð.
Ég vil einnig þakka Ólafi Håkanssyni fyrir sína aðkomu að myndarýni nefndarinnar. Það var frábært innlegg í val mynda og tillögur um lagfæringar.
Síðast en ekki síst vil ég þakka sérstaklega öllum þeim, sem gáfu tíma sinn í frágang sýningarinnar. Síðustu dagana var mikið verk eftir í uppröðun og frágang mynda í salnum, sem er meira verk en maður ímyndar sér. Þá mætti galvaskur hópur og bauð fram aðstoð sína og án þeirra hefðum við ekki getað opnað á réttum tíma. Þið eruð öll yndisleg, þið vitið hver þið eruð

F.h. sýninganefndar
Gunnar Freyr