Jólakeppni 2020

Ef marka má heimasíðuna okkar þá virðist sem lítið hafi verið í gangi undanfarnar vikur, sem er kannski rétt að einhverju leyti því við höfum þurft að draga verulega úr hefðbundnum viðburðum vegna ástandsins í samfélaginu. Við höfum hinsvegar ekki setið alveg auðum höndum og við höfum undanfarið gert myndvinnsluæfingar þar sem félagsmenn hafa fengið að spreyta sig á eftirvinnslu bæði ljósmyndum hvors annars og einnig atvinnumanna. Svo er hin árlega árbók komin í prentun og væntanleg fyrir jól, en 40 félagar tóku þátt í bókinni sem við erum hæstnægð með. Loksins eru komnar leiðbeiningar varðandi notkun spjallsins okkar, en okkar eigin Tryggvi Már Gunnarsson var svo góður að búa til kennslumyndbönd fyrir okkur, hægt er að nálgast þau í flipa sem birtist undir Spjallið hér í valmyndinni uppi.

Jólakeppni 2020 er komin í gang og mun Origo / Canon á Íslandi gefa sigurvegara keppninnar Canon Selphy Square QX 10 ljósmyndaprentara að verðmæti 28.900 kr. Þemað er einfaldlega jólin 2020 og að þessu sinni ætlum við að takmarka þátttöku við félagsmenn Fókus. Skilafrestur í keppnina er 27. desember og mun kosning hefjast strax í kjölfarið og að lokum verður sigurvegari gerður kunnur á miðnætti á gamlárskvöld.

Haustið 2020

Nú er Fókus – félag áhugaljósmyndara að komast aftur í gírinn eftir gott sumarfrí. Fyrsti viðburður haustsins verður (upphitunar)streymi á Facebook síðunni okkar og hefst það kl 20.00, þriðjudaginn 8. september. Arngrímur formaður mun hefja fundinn með nokkrum orðum varðandi vetrardagskrána og í kjölfarið munu Kiddi, Guðjón Ottó og Ragnhildur rýna í og jafnvel vinna nokkrar innsendar ljósmyndir frá félögum.

Facebook-síðu Fókus finnur þú hér:
https://www.facebook.com/groups/fokusfelag/

Júníkeppni lokið

Innilega til hamingju með sigurinn Kolbrún Nadíra í júníkeppni Fókus 2020 sem hafði þemað „Rigning“. Keppendur voru 10 talsins og gáfu 17 aðilar atkvæði. Sjáumst í næstu keppni sem haldin verður í haust þegar starfsemi félagsins fer aftur í gang.

1. sæti:
Hoppípolla
eftir Kolbrúnu Nadiru Árnadóttur
2. sæti:
Blíðan í dag
eftir Söru Elíasdóttur
3. sæti:
Í blíðu og stríðu
eftir Kristján U. Kristjánsson

Vordagskrá 2020 lokið

Það hefur aldeilis hellingur gerst í félaginu frá síðustu færslu. Í kjölfar COVID þar sem flestum viðburðum þurfti að aflýsa var farið í aðalfund um leið og við máttum hittast og ný stjórn kosin eins og vaninn er. Félagið stóð fyrir þremur, tveggja klukkustunda löngum netstreymum með myndrýni frá góðum gestum á meðan samkomubannið stóð sem hæst. Haldin var ljósmyndasýningin „Fólk í Fólkus“ í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Spönginni en sýningin stóð frá 4. júní til 3. júlí og tóku 29 félagsmenn þátt í sýningunni með 64 ljósmyndum. Ferðanefndin stóð ekki á sínu og hélt fjögur kvöldrölt með vikulegu millibili, fyrst á Hvaleyrina, svo Sólfarið í Reykjavík, fuglaljósmyndun við Vífilsstaðavatn og að lokum kvöldrölt með kaffihittingi í Grasagarðinum, en því kvöldrölti lauk með hraðkeppni þar sem 9 félagsmenn tóku þátt og vann Ólafur Magnús Håkansson fyrstu verðlaun með glæsilegri macro mynd sem sjá má við þessa fréttafærslu. 6 mánaðarkeppnir voru á önninni og hlaut Stefán Bjarnason 1. verðlaun fyrir maímánuð þar sem hann fékk prentara í verðlaun í boði Origo / Canon á Íslandi, og nú þegar þessi færsla er rituð er kosning í síðustu keppninni, júníkeppninni. Stjórn er þegar byrjuð að undirbúa haustönn fyrir árið 2020 og vonumst við til þess að sjá marga nýja meðlimi á næsta starfsári og hlökkum til að hitta þá gömlu líka.

Maíkeppni lokið

Til hamingju, AFTUR, Stefán Bjarnason með sigurmynd þína í maíkeppni Fókus sem bar þemað HREYFING. Canon á Íslandi bauð upp á þessa keppni og veitir sigurvegaranum Canon PIXMA TS-6350 fjölnotaprentara í verðlaun. Við þökkum öllum kærlega fyrir þátttökuna og vonumst til að sjá ykkur í næstu keppni.

1. sæti:
Daður á vorkvöldi
eftir Stefán Bjarnason
2. sæti:
Twirl eftir
Ragnhildi Guðrúnu Finnbjörnsdóttur
3. sæti:
Ninja
eftir Þóri Þórisson

Kosning hafin í maíkeppni

Kosning er hafin í maíkeppninni og að þessu sinni mun Canon á Íslandi / Origo gefa sigurvegaranum Canon PIXMA TS-6350 fjölnotaprentara. Athugið að til þess að geta kosið þarftu að vera meðlimur á spjallinu en allir geta skráð sig á spjallið án þess að skrá sig í sjálft Fókusfélagið. Við minnum á að öllum er velkomið að taka þátt í ljósmyndakeppnum Fókus.

En það er ekki allt og sumt, ljósmyndasýningin okkar Fólk í Fókus er enn opin og mun standa til 3. júlí. Opið alla virka daga milli 10-19 og 11-19 á föstudögum.

Sömuleiðis er aðalfundur Fókus nýafstaðinn en þar var meðal annars kosin ný stjórn fyrir næsta starfsár. Þeir Fókusfélagar sem hafa skráð sig á spjallið geta séð fundargerðina á læstu svæði Fókusfélaga. Til þess að sjá hverjir sitja nú í stjórn Fókus fyrir næsta starfsár geta smellt hér.

Starf Fókusfélagsins er nú alveg að detta í sumarfrí en kvöldrölt verða vikulega á dagskrá á þriðjudögum út júní. Næsta kvöldrölt verður á Hvaleyri í Hafnarfirði, eingöngu fyrir Fókusfélaga.

Fólk í Fókus

Ljósmyndasýning Fókus 2020 „Fólk í Fókus“ mun opna í Borgarbókasafninu Spönginni fimmtudaginn 4. júní milli kl 17 og 19. Tæplega þrjátíu áhugaljósmyndarar taka þátt í sýningunni með rúmlega 60 myndum og hvetjum við alla til að kíkja við. Sýningin mun standa til 3. júlí.

Hér er hægt að skrá sig á viðburðinn á Facebook.

Myndin hér að ofan er úr sýningunni og er eftir Ragnhildi Guðrúnu Finnbjörnsdóttur.

Aprílkeppni lokið

Við óskum Stefáni Bjarnasyni innilega til hamingju með sigur aprílkeppninnar sem hafði þemað „Vor“. Það var augljóst að fuglarnir slógu í gegn því annað sætið hneppti Þórir Þórisson fyrir sína fuglamynd og báru þessar tvær afgerandi sigur úr bítum úr kosningunni. Að lokum óskum við Sverri Pál sömuleiðis innilega til hamingju með 3. sætið. Vinningarnir eru fjölmargir, nánast of margir til að telja, í boði Fotoval. Hægt er að sjá hinar innsendingarnar hér. Keppnirnar halda áfram og næsta þema er „Hreyfing“ og vonumst við til að sjá sem flesta taka þátt.

1. sæti:
Vorleikur
eftir Stefán Bjarnason
2. sæti:
Lóan er löngu komin
eftir Þóri Þórisson
3. sæti:
Rauður
eftir Sverrir Pál Snorrason

Vorið 2020

Það er allt að gerast í Fókus! Innsendingar í aprílkeppnina eru nú komnar upp á borð svo hægt sé að kjósa um þær, sjá á spjallinu okkar hér. Verðlaunin eru fjölmörg sem raðast á efstu þrjú sætin. Keppnin er í boði Fotoval. Úrslit birtast á spjallinu föstudaginn 15. maí kl 18.00.

Maíkeppnin hefur þemað HREYFING, sem getur þýtt ansi margt – svo lengi sem það sýnir hreyfingu á einhvern hátt. Þemað var lagt til af styrktaraðila maíkeppninnar Origo Ísland / Canon á Íslandi sem ætla að gefa sigurvegara keppninnar Canon PIXMA TS6350 fjölnotaprentara. Skilafrestur til 31. maí.

Þriðjudaginn 12. maí kl 20.00 á Facebook grúbbunni okkar verður þriðja streymið okkar, en streymið mun byrja á nokkrum orðum frá formanninum okkar Arngrími Blöndahl og í kjölfarið munu Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir og atvinnuljósmyndarinn Bernhard Kristinn rýna í innsendingar frá Fókusfélögum. Þemað er PORTRAIT og mættu myndir frá ykkur berast á myndir@fokusfelag.is tímanlega eða fyrir miðnætti á morgun mánudag. Vonandi fáum við sem flestar innsendingar frá ykkur!

Marskeppni lokið

Formaðurinn Arngrímur Blöndahl afhendir Ragnhildi Guðrúnu verðlaunin og óskar henni til hamingju að hætti kórónaveirunnar eins og honum einum er lagið.

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir var í fyrsta sæti og hlýtur í verðlaun Lowepro Pro Messenger 180AW axlartösku frá Beco. Ágúst Jónsson hlýtur gjafabréf í hreinsun frá Beco fyrir annað sætið.
Takk kærlega fyrir þátttökuna allir og takk kærlega Beco fyrir þessar verðlaunagjafir.

1. sæti:
Duo Tulipa Gesneriana
eftir Ragnhildi Guðrúnu Finnbjörnsdóttur
2. sæti:
Sýslað í sóttkví
eftir Ágúst Jónsson
3. sæti:
Það sést hverjir drekka kristal
eftir Gunnar Frey Jónsson