Vordagskrá og fleira

Vordagskrá Fókus 2022 er komin upp og er aðgengileg á heimasíðunni okkar. Framundan glæsilegt tímabil hjá Fókus í kjölfar lítillar starfsemi undanfarin tvö ár vegna faraldursins sem loksins virðist vera að ljúka, 7-9-13.

Sömuleiðis eru komnar ítarlegri upplýsingar varðandi ljósmyndasýninguna okkar fyrir þá sem vilja nýta sér ICC litaprófíl frá Ljósmyndaprentun.is sem sér um prentun myndanna okkar. Ef þig langar að sjá mynd frá þér á sýningunni sem haldin verður í Ráðhúsi Reykjavíkur í vor er ekkert annað í stöðunni en að einfaldlega skrá sig í félagið og taka þátt. Við mælum með að áhugasamir kíki á Samnorræna ljósmyndasýningu í Hörpunni sem opnar föstudaginn 18. febrúar, en myndirnar þar eru prentaðar af sama aðila og mun prenta okkar sýningu.

Einnig er komið upp stafrænt afrit af Árbók Fókus 2021.

Hlökkum til að sjá ykkur í starfinu á komandi starfstímabili.

Haustkeppni Fókus 2021 í boði Origo

Þemað er haustið eða allt sem því tengist, hvort sem það er Hrekkjavaka, Októberfest, Friðarsúlan, dags- eða helgarferð Fókus já eða bara gult laufblað í garðinum hjá þér. Sigurvegarar keppninnar verða tilkynntir á miðjum kvöldfundi þann 16. nóvember og verða verðlaun afhent á staðnum til þeirra sigurvegara sem verða viðstaddir á kvöldfundinum. Kynnið ykkur keppnina betur á spjallinu okkar hér.

Aðalfundur Fókus 2021 verður haldinn 7. september

Þá er loksins komið að því! Aðalfundur 2021 sem felldur var af dagskrá í maí síðastliðnum vegna samkomutakmarkanna er loksins kominn aftur á dagskrá og verður haldinn þann 7. september n.k. Allir félagsmenn fengu tölvupóst þess efnis nýlega með upplýsingum um stað og stund. Ef þú ert í félaginu en kannast ekki við að hafa fengið póstinn þá máttu endilega skoða ruslsíuna í póstforritinu þínu og ef bréfið finnst ekki þá máttu endilega hafa samband við okkur með tölvupósti á fokusfelag (hjá) fokusfelag.is

Canon RF 600/11 og RF 800/11

Snæfellsjökull í baksýn. Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 400

Það er miðvikudagskvöldið 3. mars 2021 þegar þessi pistill er ritaður. Jörð hristist á suðvesturhorninu og fréttamenn bíða spenntir eftir að hoppa upp í þyrlur til þess að sjá fyrstu ummerki væntanlegs eldgos á Reykjanesi. Því er ekki seinna vænna en að klára þessa umfjöllun um tvær af nýjustu linsum Canon. Stórundarlegum og nýstárlegum linsum sem hafa aldrei sést áður frá neinum framleiðanda, en þær munu vera Canon RF 600mm f/11 IS STM og Canon RF 800mm f/11 IS STM. Ég nefni þær í samhengi við eldsumbrot því þetta eru óvenjulega langar linsur sem geta fangað landslag úr gríðarlegri fjarlægð, og það á verði sem flestir ættu að ráða við.

Lesa áfram „Canon RF 600/11 og RF 800/11“

Jólakeppni 2020

Ef marka má heimasíðuna okkar þá virðist sem lítið hafi verið í gangi undanfarnar vikur, sem er kannski rétt að einhverju leyti því við höfum þurft að draga verulega úr hefðbundnum viðburðum vegna ástandsins í samfélaginu. Við höfum hinsvegar ekki setið alveg auðum höndum og við höfum undanfarið gert myndvinnsluæfingar þar sem félagsmenn hafa fengið að spreyta sig á eftirvinnslu bæði ljósmyndum hvors annars og einnig atvinnumanna. Svo er hin árlega árbók komin í prentun og væntanleg fyrir jól, en 40 félagar tóku þátt í bókinni sem við erum hæstnægð með. Loksins eru komnar leiðbeiningar varðandi notkun spjallsins okkar, en okkar eigin Tryggvi Már Gunnarsson var svo góður að búa til kennslumyndbönd fyrir okkur, hægt er að nálgast þau í flipa sem birtist undir Spjallið hér í valmyndinni uppi.

Jólakeppni 2020 er komin í gang og mun Origo / Canon á Íslandi gefa sigurvegara keppninnar Canon Selphy Square QX 10 ljósmyndaprentara að verðmæti 28.900 kr. Þemað er einfaldlega jólin 2020 og að þessu sinni ætlum við að takmarka þátttöku við félagsmenn Fókus. Skilafrestur í keppnina er 27. desember og mun kosning hefjast strax í kjölfarið og að lokum verður sigurvegari gerður kunnur á miðnætti á gamlárskvöld.

Haustið 2020

Nú er Fókus – félag áhugaljósmyndara að komast aftur í gírinn eftir gott sumarfrí. Fyrsti viðburður haustsins verður (upphitunar)streymi á Facebook síðunni okkar og hefst það kl 20.00, þriðjudaginn 8. september. Arngrímur formaður mun hefja fundinn með nokkrum orðum varðandi vetrardagskrána og í kjölfarið munu Kiddi, Guðjón Ottó og Ragnhildur rýna í og jafnvel vinna nokkrar innsendar ljósmyndir frá félögum.

Facebook-síðu Fókus finnur þú hér:
https://www.facebook.com/groups/fokusfelag/

Júníkeppni lokið

Innilega til hamingju með sigurinn Kolbrún Nadíra í júníkeppni Fókus 2020 sem hafði þemað „Rigning“. Keppendur voru 10 talsins og gáfu 17 aðilar atkvæði. Sjáumst í næstu keppni sem haldin verður í haust þegar starfsemi félagsins fer aftur í gang.

1. sæti:
Hoppípolla
eftir Kolbrúnu Nadiru Árnadóttur
2. sæti:
Blíðan í dag
eftir Söru Elíasdóttur
3. sæti:
Í blíðu og stríðu
eftir Kristján U. Kristjánsson

Vordagskrá 2020 lokið

Það hefur aldeilis hellingur gerst í félaginu frá síðustu færslu. Í kjölfar COVID þar sem flestum viðburðum þurfti að aflýsa var farið í aðalfund um leið og við máttum hittast og ný stjórn kosin eins og vaninn er. Félagið stóð fyrir þremur, tveggja klukkustunda löngum netstreymum með myndrýni frá góðum gestum á meðan samkomubannið stóð sem hæst. Haldin var ljósmyndasýningin „Fólk í Fólkus“ í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Spönginni en sýningin stóð frá 4. júní til 3. júlí og tóku 29 félagsmenn þátt í sýningunni með 64 ljósmyndum. Ferðanefndin stóð ekki á sínu og hélt fjögur kvöldrölt með vikulegu millibili, fyrst á Hvaleyrina, svo Sólfarið í Reykjavík, fuglaljósmyndun við Vífilsstaðavatn og að lokum kvöldrölt með kaffihittingi í Grasagarðinum, en því kvöldrölti lauk með hraðkeppni þar sem 9 félagsmenn tóku þátt og vann Ólafur Magnús Håkansson fyrstu verðlaun með glæsilegri macro mynd sem sjá má við þessa fréttafærslu. 6 mánaðarkeppnir voru á önninni og hlaut Stefán Bjarnason 1. verðlaun fyrir maímánuð þar sem hann fékk prentara í verðlaun í boði Origo / Canon á Íslandi, og nú þegar þessi færsla er rituð er kosning í síðustu keppninni, júníkeppninni. Stjórn er þegar byrjuð að undirbúa haustönn fyrir árið 2020 og vonumst við til þess að sjá marga nýja meðlimi á næsta starfsári og hlökkum til að hitta þá gömlu líka.