Næturferð Fókus 9. júní

Það var glaðbeittur hópur 18. ljósmyndara sem lagði af stað í óvenjulega ljósmyndaferð seinnpart dags, föstudaginn 9. júní. Leiðin lá út á Snæfellsnes, þar sem planið var að mynda stórkostlegt landslagið þar við sólsetur og sólarupprás í einni og sömu ferðinni.

Veðrið var okkur ekki alveg nógu hagstætt og í fyrsta stoppi við Búðir gekk á með dimmum skúrum, en inn á milli opnaðist skýjahulan og bjó til dramatíska birtu, en heilt yfir var birtan í þessu stoppi frekar flöt.

Það var frekar haustlegt um að litast í þessu fyrsta stoppi, snjóaði í fjöll og grámi yfir öllu. Mynd: Tryggvi Már

Næst stoppuðum við hjá höfninni hjá Arnarstapa og það er óhætt að segja að þar hafi birtan verið aðeins hagstæðari. Skýjahulan var opnari og Arnarstapi er óþrjótandi uppspretta myndefna.

Birtan við Arnarstapa var glæsileg á köflum. Mynd: Kristján U. Kristjánsson
Fókusfélagar spá og spökulear í ljós, skugga, linsur, filtera og myndbyggingu á Arnarstapa. Mynd: Kristján U. Kristjánsson

Næsta stopp var við Lóndranga. Þar reyndi rokið talsvert á þrífætur og annan búnað vegna vinds. Um þetta leyti var sólin nánast alveg sest, en skýjafarið varð til þess að erfitt var að greina sólseturslitina. Þó rofaði örlítið til annað slagið.

Lóndrangar, með 3 stoppa filter + softgrad ND filter. Það er alltaf svo gaman að leika sér með filterana. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson

Næsta stopp átti að vera við Djúpalónssand, en þar var mjög dimmt yfir og við ákváðum þess vegna að elta birtuna og tókum stefnuna á kirkjuna við Ingjaldshól. Þar var prýðileg birta þar og lúpínan aðeins komin afstað. En áfram var þungt yfir fjöllunum og snjóaði í fjöllin.

Falleg birta um eittleytið og lúpínan að skríð af stað. Kirkjan og næsta nágrenni hennar er ægifagurt þegar lúpínan er í fullum skrúða og vel þess virði að leggja leið sína þangað. Mynd: Tryggvi Már.

Við ókum síðan frá Ingjaldshóli og stefndum á stutt stopp á Búlandshöfða. Þar var hins vegar slydda, rok og fjögurra stiga hiti, þannig að við héldum áfram að Kirkjufelli. Þar biðum við góða stund eftir að rigningarskúrin gengi yfir og eftir það náðum við að mynda í góða stund.

Hluti hópsins myndar Kirkjufellsfoss og Kirkjufell á milli skúra. Mynd: Kristján U. Kristjánsson.
Þó svo að myndefnið sé kannski orðið svolítið klisjukennt er allta gaman að takast á við ólíka birtu og ólík skilyrði. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson

Þó svo að veðrið hafi ekki verið okkur mjög hagstætt er óhætt að segja að ferðin hafi heppnast nokkuð vel. Góður félagsskapur áhugsamra ljósmyndara gerir þetta brölt allt saman talsvert skemmtilegra.

Fleiri myndir úr ferðinni má sjá í Facebook hópi Fókus.

Skráðu þig í Fókus ef þig langar til þess að komast í skapandi og skemmtilegan félagsskap áhugaljósmyndara og taka þátt í starfseminni.

Á spjallinu okkar geturðu svo meðal annars fylgst með umræðum og séð myndir úr ferðum félagsins.