Áhugaverðar sýningar og hlaðvörp

Nú þegar styttist í lok starfsársins hjá okkur er kannski snjallt að benda fólki á hlaðvörp sem hægt er að hlusta á í útilegum og á ferðlögum, sjónvarpsþætti og annað sem getur stytt okkur stundirnar á milli þess sem við förum út að mynda í sumar.

Við minnum þó á opið hús 16. maí og kvöldrölt sem verða öll þriðjudagskvöld í júní og félagar munu fá nánari upplýsingar um í tölvupósti.

Sýningar í gangi

Þegar þetta er skrifað vitum við af tveimur áhugaverðum ljósmyndasýningum sem eru í gangi.

Myndir ársins í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Árleg sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands. Á sýningunni í ár verða myndir frá liðnu ári sem valdar verða af óháðri dómnefnd úr öllum innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara. Sýningin er opin til 27. maí á opnunartíma safnsins. Á safninu er líka sýning á myndum frá eldgosinu í Vestmannaeyjum í tilefni af því að nú eru liðin 50 ár frá gosinu.

Í myndasal Þjóðminjasafnins stendur yfir sýningin Ekki augnablikið heldur eilífðin þar sem Rúnar Gunnarsson sýnir myndir af mannlífinu í Reykjavík frá löngum ferli sínum sem ljósmyndari.

Nokkur hlaðvörp um ljósmyndun

Ljósmyndaraspjallið er íslenskt hlaðvarp þar sem hægt er að nálgast 18 viðtöl við íslenska ljósmyndara. Virkilega áhugavert spjall við alls kyns skapandi og skemmtilegt fólk.

Þú veist betur, þáttur á RÚV þar sem rætt er við Laufeyju Ósk Magnúsdóttur, ljósmyndara á Selfossi og fyrrverandi formann Ljósmyndarafélags Íslands. Í þættinum er rætt um ljósmyndun frá ýmsum hliðum og ýmis grunnhugtök ljósmyndatækninnar útskýrð.

Viðtal við Vilhelm Gunnarsson blaðaljósmyndara, hjá Iðunni. Fjallað um framtíð blaðaljósmyndunar og mikilvægi hennar við að skrá sögu lands og þjóðar.

The Candid Frame er hlaðvarp þar sem lögð er áhersla á að kynnast ljósmyndurum og sögu þeirra og lítil áhersla á græjur og tækni. Hér má nálgast rúmlega 600 þætti um alls kyns ljósmyndara.

A Photographic Life er fjölbreytt hlaðvarp þar sem ólíkir þættir ljósmyndunar eru teknir fyrir af Dr. Grant Scott, ljósmyndara, leikstjóra

Viðtal við Lee Jeffries sem myndaði hljómsveitina Metallica fyrir nýjustu plötu þeirra og nálgaðist verkefnið með sama hætti og hann hefur myndað útigangsfólk víða um heim. Myndirnar má skoða hér.

Að auki er rétt að vekja athygli á að RÚV sýndi í vetur þáttaröðina Ímynd, heimildarþáttaröð í sex þáttum þar sem íslensk ljósmyndun er skoðuð út frá sjónarhorni lista, landslags, samtímans, skrásetningar, fréttaflutnings, fortíðar og framtíðar. Þættirnir eru aðgengilegir hjá RÚV til 5. júní 2023.

Skráðu þig í Fókus ef þig langar til þess að komast í skapandi og skemmtilegan félagsskap áhugaljósmyndara og taka þátt í starfseminni.

Á spjallinu okkar geturðu svo meðal annars fylgst með umræðum og séð myndir úr ferðum félagsins.