AF Microadjustment útskýring og sýnishorn

Hér má spyrja hvers sem er varðandi ljósmyndun, tæknimál, græjur, aðstoð vegna vefsins eða varðandi sjálft Fókusfélagið. Hér verður öllu svaraverðu svarað.
Svara
Skjámynd
kiddi
Kerfisstjóri
Kerfisstjóri
Póstar: 274
Skráði sig: Þri Nóv 26, 2019 11:34 pm
Staðsetning: Reykjavík
Hafðu samband:

Lau Apr 11, 2020 10:51 pm

Hér er ég að brydda upp á málefni sem verður tæknilega úrelt fljótlega, ef það er ekki orðið það nú þegar, þökk sé spegillausum myndavélum.

AFMA eða svokallað AF Microadjustment er fítus sem hefur verið í boði í DSLR myndavélum í rúm 15 ár. Það sem það gerir er að fínstilla fókuskerfi myndavélar gagnvart ákveðnum linsum. Ástæðan fyrir að þess sé þörf yfir höfuð, er sú að í spegilvélum (DSLR) er sérstakur skynjari (PDAF, Phase Detect Auto Focus) sem sér um að finna besta skerpu, sem er ótengdur sjálfum myndskynjaranum (CDAF, Contrast Detect Auto Focus). Það býður upp á þann hausverk að linsa sem hefur skekkju í eina áttina lendir á myndavél sem hefur skekkju í hina áttina og þá verða skekkjumörkin of stór sem veldur því að aldrei næst almennilega skörp mynd. Þið hafið oft heyrt ljósmyndara státa af því að eiga góð eintök af hinu og þessu en í langflestum tilfellum er það er bara heppni að þeir fengu linsu sem samsvaraði sér vel við þeirra tilteknu myndavél. Þessi skekkjumörk eru hinsvegar stöðugt að minnka því framleiðslugæði á vélbúnaði er stöðugt að aukast, t.d. nútíma myndavélar og linsur eru smíðaðar af miklu meiri nákvæmni en tíðkaðist fyrir 15 árum svo það er ansi sjaldgæft að lenda á „lélegu eintaki“ (sem getur alveg verið virkilega skörp og góð linsa, bara vanstillt í öfuga átt miðað við myndavélina).

Fyrir rúmu ári síðan eignaðist ég 23 ára gamla linsu sem var ekki alveg að dansa með 4 ára gömlu Canon 5DsR vélinni minni, það var bara ekkert í lagi sem kom út úr henni svo ég henti upp Spyder LensCal stillispjaldinu mínu sem ég fékk í Beco. Ég ítreka þó að svona stillispjald er alls ekki nauðsynlegt, það er vel hægt að föndra svona heima með því að setja reglustiku í 45° halla og einhverja flata mynd fyrir miðju sem snýr beint að myndavél, það gerir nákvæmlega sama hlutinn.

Á eftirfarandi mynd tók ég nokkrar prufumyndir, þar sem ég prófa allan AFMA skalann sem Canon vélin mín býður uppá, frá -20 og yfir í +20. Þumalputtareglan er að skjóta stillispjaldið af 50x lengd linsunnar, þannig að ef þú værir með 50mm langa linsu þá þýddi það 2,5metra fjarlægð milli stillispjalds og linsu. Í mínu tilfelli var ég með 500mm linsu sem hefði kallað á 25 metra fjarlægð við stillingu en mér þótti það fulllangt, og þá gildir hin reglan að stilla linsuna út frá þeirri fjarlægð sem linsan er líklegust til að vera notuð á, ~10 metrar eftir mínum smekk.

lenstest-small.jpg
lenstest-small.jpg (541.05 KiB) Skoðað 6803 sinnum
Hægt er að smella hér til þess að sjá stærri mynd


Það er ekki alveg hlaupið að því að átta sig á hvar skerpan liggur, svo ég misþyrmdi myndunum aðeins í Photoshop til að framkalla nákvæmlega hvar skerpan liggur. Þetta gerði ég með því að keyra Vibrance í 100, svo Unsharp Mask í botn og að lokum smá Levels til að dekkja myndina og draga fram þennan regnboga, en regnboginn sýnir einmitt nákvæmlega hvað er að gerast. Það sem er rautt er í raun „back focus“ og það sem er grænt er „front focus“. Þarna er Photoshop misþyrmingin mín í raun að draga fram „chromatic aberration“ veikleika linsunnar og ýkja hann allverulega, svo með þessari leið get ég séð nákvæmlega hvar besta skerpan liggur, sem er guli liturinn. Miðað við upprunalegu stillingu myndavélarinnar sem var AFMA 0, þá sjáið þið að linsan var að fókusa örlítið fram fyrir sig, með því að stilla AFMA á sirka +12 þá náði ég að negla þetta nokkurnveginn og linsan fór að haga sér töluvert betur hjá mér eftir þetta.

Það er þó ekki þar með sagt að allar mínar myndir verði skarpar og í lagi héðan í frá, en ég er búinn að auka líkurnar á því allverulega. Það er svo ótrúlega margt sem spilar inn í, og þessi skekkjumörk geta breyst við ýmsar aðstæður, t.d. hitastig. Svo er það ekki að hjálpa að myndavélin mín er 50 megapixlar, en það þýðir í raun að engin mistök eru fyrirgefin.

Þetta vandamál minnkar til muna með spegillausum vélum því þar er myndskynjarinn sjálfur að meta hvar skerpan liggur og þarf ekki að treysta alfarið á þriðja aðilann sem er gamli PDAF fókusskynjarinn eins og sá sem er í öllum DSLR vélum. Reyndar eru nútíma skynjarar reyndar komnir með pínulitla PDAF fókusskynjara innan í sjálfan myndskynjarann til að flýta fyrir og hjálpa fókuskerfinu en þar sem aðalmyndskynjarinn gefur lokaorðið þá er vandamálið nánast úr sögunni.
Gunnar_Freyr
Póstar: 155
Skráði sig: Þri Des 17, 2019 8:36 pm

Sun Apr 12, 2020 7:58 am

Ég reyndi þetta einhvern tíma en mér tókst ekki betur en svo að linsan sem ekki stóð sig batnaði ekkert en aðrar fínar linsur voru ekki sáttar og ég endaði í algjöru rugli haha. Er svo feginn að vera með speglalaust kerfi í dag :)
Svara