Fólk í Fókus

Ljósmyndasýning Fókus 2020 „Fólk í Fókus“ mun opna í Borgarbókasafninu Spönginni fimmtudaginn 4. júní milli kl 17 og 19. Tæplega þrjátíu áhugaljósmyndarar taka þátt í sýningunni með rúmlega 60 myndum og hvetjum við alla til að kíkja við. Sýningin mun standa til 3. júlí.

Hér er hægt að skrá sig á viðburðinn á Facebook.

Myndin hér að ofan er úr sýningunni og er eftir Ragnhildi Guðrúnu Finnbjörnsdóttur.

Aprílkeppni lokið

Við óskum Stefáni Bjarnasyni innilega til hamingju með sigur aprílkeppninnar sem hafði þemað „Vor“. Það var augljóst að fuglarnir slógu í gegn því annað sætið hneppti Þórir Þórisson fyrir sína fuglamynd og báru þessar tvær afgerandi sigur úr bítum úr kosningunni. Að lokum óskum við Sverri Pál sömuleiðis innilega til hamingju með 3. sætið. Vinningarnir eru fjölmargir, nánast of margir til að telja, í boði Fotoval. Hægt er að sjá hinar innsendingarnar hér. Keppnirnar halda áfram og næsta þema er „Hreyfing“ og vonumst við til að sjá sem flesta taka þátt.

1. sæti:
Vorleikur
eftir Stefán Bjarnason
2. sæti:
Lóan er löngu komin
eftir Þóri Þórisson
3. sæti:
Rauður
eftir Sverrir Pál Snorrason

Vorið 2020

Það er allt að gerast í Fókus! Innsendingar í aprílkeppnina eru nú komnar upp á borð svo hægt sé að kjósa um þær, sjá á spjallinu okkar hér. Verðlaunin eru fjölmörg sem raðast á efstu þrjú sætin. Keppnin er í boði Fotoval. Úrslit birtast á spjallinu föstudaginn 15. maí kl 18.00.

Maíkeppnin hefur þemað HREYFING, sem getur þýtt ansi margt – svo lengi sem það sýnir hreyfingu á einhvern hátt. Þemað var lagt til af styrktaraðila maíkeppninnar Origo Ísland / Canon á Íslandi sem ætla að gefa sigurvegara keppninnar Canon PIXMA TS6350 fjölnotaprentara. Skilafrestur til 31. maí.

Þriðjudaginn 12. maí kl 20.00 á Facebook grúbbunni okkar verður þriðja streymið okkar, en streymið mun byrja á nokkrum orðum frá formanninum okkar Arngrími Blöndahl og í kjölfarið munu Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir og atvinnuljósmyndarinn Bernhard Kristinn rýna í innsendingar frá Fókusfélögum. Þemað er PORTRAIT og mættu myndir frá ykkur berast á myndir@fokusfelag.is tímanlega eða fyrir miðnætti á morgun mánudag. Vonandi fáum við sem flestar innsendingar frá ykkur!

Marskeppni lokið

Formaðurinn Arngrímur Blöndahl afhendir Ragnhildi Guðrúnu verðlaunin og óskar henni til hamingju að hætti kórónaveirunnar eins og honum einum er lagið.

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir var í fyrsta sæti og hlýtur í verðlaun Lowepro Pro Messenger 180AW axlartösku frá Beco. Ágúst Jónsson hlýtur gjafabréf í hreinsun frá Beco fyrir annað sætið.
Takk kærlega fyrir þátttökuna allir og takk kærlega Beco fyrir þessar verðlaunagjafir.

1. sæti:
Duo Tulipa Gesneriana
eftir Ragnhildi Guðrúnu Finnbjörnsdóttur
2. sæti:
Sýslað í sóttkví
eftir Ágúst Jónsson
3. sæti:
Það sést hverjir drekka kristal
eftir Gunnar Frey Jónsson

Kosning hafin í marskeppni

Við látum engan alheimsfaraldur stöðva okkur alveg. Ljósmyndakeppni Fókus heldur áfram og að þessu sinni eru það vinir okkar hjá Beco ljósmyndavöruverslun sem gefa tvenn verðlaun að þessu sinni. Sigurvegari keppninnar mun hljóta veglega Lowepro Pro Messenger 180AW axlartösku og annað sætið hreppir gjafakort í skynjarahreinsun hjá Beco. Úrslitin verða kunn þann 13. apríl kl 18.00 en þangað til geta skráðir notendur spjallsins gefið atkvæði sín hér:
https://www.fokusfelag.is/spjall/viewtopic.php?f=22&t=207

Viðburðum aflýst

Kæru félagar í Fókus.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að nú glímir þjóðin við sameiginlegt viðfangsefni sem kallað er Kórónaveiran. Með hliðsjón af ráðum okkar frábæra forsvarsfólks í landinu þá liggur í augum uppi að þetta mun hafa tímabundin áhrif á okkar starf í Fókus. Það er fyrst að nefna að fundurinn okkar á þriðjudaginn 17. mars fellur niður auk þess sem það lítur ekki út fyrir að við förum á sameiginlegt rölt á næstu vikum. Við í stjórninni munum fylgjast náið með stöðunni og að sjálfsögðu koma starfinu í eðlilegt horf við fyrsta tækifæri. Höldum samt áfram að vera skapandi í þessu sameiginlega áhugamáli okkar og búum til viðfangsefni út frá stöðunni og höfum áfram gaman í ljósmyndun, og í því samhengi má nefna að ljósmyndakeppnirnar halda áfram og fyrir næstu keppni mun Beco veita tvenn verðlaun, sjá nánar hér: https://www.fokusfelag.is/spjall/viewtopic.php?f=22&t=187

Kær kveðja,
Stjórnin

Febrúarkeppni lokið

Formaðurinn Arngrímur Blöndahl afhendir Antoni Bjarna Alfreðssyni verðlaunin og óskar honum til hamingju að hætti kórónaveirunnar

Við óskum Antoni Bjarna Alfreðssyni innilega til hamingju með sigurinn í febrúarkeppninni okkar. Hann hlýtur Canon Selphy CP-1300 ljósmyndaprentara að launum í boði Origo / Canon á Íslandi sem voru svo góðir að styrkja Fókusfélagið með verðlaununum. Hægt er að sjá fleiri myndir frá keppninni á spjallinu okkar hér.

1. sæti:
Dark Bride
eftir Anton Bjarna Alfreðsson
2. sæti:
Þorpið við fjörðinn
eftir Örvar Atla Þorgeirsson
3. sæti:
Miðbær
eftir Rúnar Sigurð Sigurjónsson

Úr vél á vegg

Þriðjudaginn 3. mars mun Páll Guðjónsson heimsækja okkur með fyrirlestur sem hann kallar „ÚR VÉL Á VEGG“. Þar vísar Páll til þess ferðalags sem ljósmynd fer í frá því að hún er fönguð með myndavélinni, unnin til útprentunar, og allt þar til hún verður að listaverki upp á vegg.

Fundurinn er eingöngu ætlaður félagsmönnum og munu Fókusfélagar fá tölvupóst með stað og stund.

Ljósmynd í titli var tekin í ferð Fókusfélaga til Vestmannaeyja á síðasta ári. Höfundur Arngrímur Blöndahl.

Kvöldfundur með Chris

Nú á þriðjudaginn 18. febrúar kemur Christopher Lund ljósmyndari í heimsókn og kynnir fyrir okkur nýju bókina sína „Iceland – Contrasts In Nature“ og verður hann með eintök af bókinni meðferðis ef áhugasamir vilja kaupa, bókin kostar 5.000 kr. og verður eingöngu hægt að greiða með reiðufé eða millifærslu.

Við ætlum að breyta aðeins út af laginu í þetta sinn og hafa fundinn opinn fyrir almennum gestum svo nú er tækifæri til að bjóða áhugasömum vinum og vandamönnum að koma með og upplifa hefðbundinn Fókusfund.

Mæting er kl 20.00 í Kelduskóla Korpu, gengið inn á vinstri hlið hússins og er fundi lokið kl 22.00.